Braut gegn þroskaheftri tengdamóður sinni

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaheftri konu. Maðurinn var tengdasonur konunnar. Lögregla rannsakaði önnur meint kynferðisbrot annarra manna gagnvart sömu konu en sú rannsókn var látin niður falla samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara í nóvember.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa á tólf mánaða samfelldu tímabili fram til febrúar 2013, að minnsta kosti í þrjú aðgreind skipti í hverjum mánuði, haft samræði við konuna, með því að notfæra sér andlega fötlun hennar þar sem hún gat ekki spornað við samræðinu eða skilið þýðingu þess vegna fötlunarinnar.

Maðurinn viðurkenndi þegar við þingfestingu málsins að hafa haft kynmök  við konuna í nokkur skipti en neitaði því að hafa notfært sér andlega fötlun hennar. Sagði hann mökin hafa átt sér stað með hennar vilja. Hann hafnaði bótakröfu.

Þroskaskerðing frá frumbernsku

Konan sem í dag er 53 ára gömul hefur búið við þroskaskerðingu frá frumbernsku, en hún veiktist mánaðargömul með krampaköstum. Þroskaframvinda hennar var því hæg í bernsku og á unglingsárum. Við mat á þroska árið 1971 þegar hún  var 10 ára gömul var  þroskaaldur metinn fimm og hálft ár og greindarvísitala um 50. Við 16 ára aldur var vitsmunaþroski aftur metinn og mældist greindarvísitala þá enn um það bil 50. Hún náði ekki tökum á lestri, gat til dæmis aðeins lesið smáorð og skrifað einfaldan texta.

Niðurstaða mats sem konan gekkst undir í mars í fyrra var m.a. sú að allur almennur skilningur hennar er skertur. Hún skilur einföld samskipti en á í erfiðleikum með flóknari samskipti og aðstæður. Hún skilur hins vegar muninn á sannleika og ósannindum. 

Samkvæmt matinu hefur konan atburðaminni og verður því að ætla, segir í niðurstöðu dómsins, að unnt sé að taka mark á lýsingum hennar varðandi þá atburði sem hún hefur upplifað.  Þá kemur skýrt fram í matsgerðinni að hún er áhrifagjörn og vill þóknast fólki. 

Erfitt er að meta af nákvæmni áhrif þeirra ítrekuðu kynferðisbrota sem brotaþoli hefur mátt þola vegna fötlunar hennar, segir m.a. í niðurstöðu héraðsdóms. Þetta á einkum við vegna erfiðleika hennar við að tjá eigin líðan og tilfinningar. „Ekki er þó unnt að draga í efa að þessir atburðir hafa haft mjög slæm og varanleg áhrif á líðan hennar eins og þekkt er þegar ófatlaðir eiga í hlut.“

Konan lýsti því til dæmis við skýrslutöku að sér hafi liðið hræðilega vegna þessara atburða en ekki getað veitt manninum viðnám.

Átti að vernda en braut gegn

Þá segir í niðurstöðu héraðsdóms: „Samkvæmt þessu er hafið yfir allan vafa að brotaþoli er andlega fötluð en ákærði hefur viðurkennt að hann hafi gert sér grein fyrir þessari fötlun hennar og að hafa margoft haft við hann samræði. Sú vörn hans að brotaþoli hafi sjálf viljað eiga mök við hann er haldlaus þegar til þess er litið hvernig andlegri fötlun hennar er háttað. “

Dómurinn segir að maðurinn hafi sér það eitt til málsbóta að hafa játað sök. „Hann hefur þráfaldlega brotið gegn andlega fatlaðri tengdamóður sinni sem hann hélt heimili með ásamt konu sinni og brugðist með því þeirri skyldu sinni að styðja hana og vernda vegna fötlunar hennar, þvert á móti hefur hann brotið gróflega gegn henni kynferðislega.“

Aðrir menn sagðir koma við sögu

Mál þetta hefur dregist mjög en fyrir því eru þær ástæður að jafnframt rannsókn á brotum mannsins gagnvart konunni rannsakaði lögregla ætluð brot annarra tiltekinna manna gagnvart sömu konu. Var mál þetta því látið bíða niðurstöðu þeirrar rannsóknar sem felld var niður með ákvörðun ríkissaksóknara hinn 28. nóvember sl.

Niðurstaða héraðsdóms er sú að maðurinn sæti fangelsi í sex ár. Þá er honum gert að greiða konunni miskabætur að fjárhæð 2,5 milljónir króna ásamt vöxum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert