Í þriðja sæti á Evrópumeistaramótinu

Alex Freyr Gunnarsson og Liis End.
Alex Freyr Gunnarsson og Liis End.

„Þetta var rosalega gaman, gekk rosalega vel og fór allt allt í raun eins og við gerðum ráð fyrir,“ segir Alex Freyr Gunnarsson en hann og dansfélagi hans, Liis End, urðu í þriðja sæti á Ballroom/Standard dönsum fullorðinna á Evrópumeistaramótinu í samkvæmisdönsum sem fram fór í Blackpool í Englandi á sunnudaginn. Fyrsta sætið hlaut parið sem eru núverandi heimsmeistarar.

Samtals tóku 110 pör frá Evrópuríkjum þátt í mótinu en undir það síðasta voru sex eftir og þar á meðal Alex og Liis. „Þegar komið er í topp sex er allt gert til þess að sigra og parið sem sigraði eru núverandi heimsmeistarar og svolítið erfitt að vinna þau,“ segir Alex. Hins vegar sé alltaf gaman að áskorunum og sækja fram. 

Dagskráin framundan er þéttsetin en þau Alex og Liis fljúga til Tallinn í Eistlandi í fyrramálið til þess að æfa og í framhaldinu fara þau til Ítalíu í æfingabúðir. Síðan hefjast keppnir aftur í maí. Þar á meðal heimsmeistaramótið í Blackpool. Einnig munu þau keppa í Þýskalandi og í London.

„Það er yfirleitt alltaf mikið að gera í maí en það verða líka tvö mót í sumar á Ítalíu,“ segir Alex. Í lok sumars verða síðan keppnir í Asíu. „Þannig að það er eiginlega alltaf nóg að gera í hverjum mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert