Nýtt leikrit um Latabæ í Þjóðleikhúsinu

Glanni glæpur, íþróttaálfurinn og Solla stirða búa í Latabæ.
Glanni glæpur, íþróttaálfurinn og Solla stirða búa í Latabæ.

Nýtt íslenskt leikverk um Latabæ verður sett upp í Þjóðleikhúsinu í haust. Þetta verk er sérstaklega samið í tilefni af stórafmæli Latabæjar.

Í ár eru liðin 20 ára frá því að Magnús Scheving skrifaði bókina Áfram Latibær, sem markaði upphafið að Latabæjarævintýrinu, segir í fréttatilkynningu.

Fljótlega þar á eftir var bókin staðfærð fyrir svið og sett upp í kjölfarið í Loftkastalanum þar sem hún var sýnd fyrir fullu húsi í tæp tvö ár.  Nú eru liðin 17 ár frá fyrstu uppsetningu á leikverki um Latabæ og á þessu 20 ára afmælisári verður því ný og glæsileg leiksýning fyrir alla fjölskylduna sett upp í Þjóðleikhúsinu.

Hið nýja verk er skrifað af Magnúsi Scheving og Ólafi Þorvaldz, sem hefur starfað sem handritshöfundur í Latabæ undanfarin ár. Rúnar Freyr Gíslason munu leikstýra verkinu. Enn er að mestu óskipað í hlutverk, en eins og áður mun Stefán Karl Stefánsson fara með hlutverk Glanna glæps, enda hefur Stefán Karl túlkað Glanna með einstökum hætti í þeim fjölmörgu sjónvarpsþáttum sem framleiddir hafa verið um lífið í Latabæ sem sýndir hafa verið í yfir 170 löndum um heim allan.

Leita nýrrar Sollu stirðu

Þá verður farið sérstaklega í prufur fyrir ungar stúlkur á aldrinum 14 – 20 ára, til að finna nýja Sollu stirðu.  Áður hefur Solla verið túlkuð af söng- og leikkonunni Selmu Björnsdóttur, Lindu Ásgeirsdóttur, oft kennda við Skoppu og Skrýtlu og Unni Eggertsdóttur sem hefur m.a. sungið í forkeppni Eurovision og séð um sinn eigin sjónvarpsþátt.  

 Ýmis leikverk hafa verið sett upp um Latabæ, víðsvegar um heiminn, og hefur Latibær selt rúmlega 1,5 milljón leikhúsmiða.  Þetta er hinsvegar í fyrsta sinn síðan 1999 sem Latibær er settur á svið í einu af stóru leikhúsunum á Íslandi.

Leiksýningin mun verða frumsýnd um miðjan september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka