Reyna að slá taubleiumet

Frá taubleyjuskiptunum í fyrra.
Frá taubleyjuskiptunum í fyrra. mbl.is/Ómar

„Við ætlum að vera aftur með núna og þá með það að markmiði að slá heimsmetið aftur. Þegar hafa 37 skráð sig til þátttöku en það er hægt að skrá sig fram til klukkan 10.30 á laugardaginn,“ segir Helga Dögg Yngvadóttir í samtali við mbl.is en hún vinnur að því ásamt fleirum að taka þátt í að slá heimsmetið í taubleiuskiptingum en tilraunin til þess hefst á laugardaginn klukkan 11.00 að staðartíma um allan heim. Bleiuskiptin hefjist á slaginu 11.00 og því þurfi þátttakendur að mæta tímanlega.

Heimsmet var sett á síðasta ári en þá tók Ísland fyrst þátt. Þá voru samanlangt settar taubleiur á 8.301 barn á einum sólarhring. Fólk mætir einfaldlega á staðinn með barnið sitt og taubleiu og skiptir á barninu. Ákveðnar reglur frá Heimsmetabók Guinness gilda þó um það hvernig staðið er að málum. Sá sem skiptir um bleiu verður þannig að vera eldri en 18 ára, barnið má ekki vera lengra en 39 tommur eða rúmlega 99 sentimetrar og um verður að ræða bleiu sem er keypt. Ekki má koma með heimagerða bleiu. 

„Þetta þurfum við allt að skoða þegar fólkið mætir. Þetta verður sömuleiðis að fara fram á stað sem er opinn fyrir almenning en bleiuskiptastaðurinn verður eftir sem áður að vera afmarkaður,“ segir Helga en atburðurinn fer fram í húsnæði Lygna fjölskyldumiðstöðvar í Síðumúla 10. Þá þarf að taka myndir fyrir og eftir bleiuskipti auk þess sem ákveðinn fjölda vitna þarf eftir fjölda þátttakenda sem staðfesta að farið sé að settum reglum og senda síðan Guinness greinargerð. Þar af er eitt vitni með sérþekkingu á taubleium.

Samtals tóku 59 manns þátt í fyrra með samsvarandi fjölda barna. Markmiðið er þó ekki bara að slá heimsmet heldur einnig að vekja athygli á taubleium sem umhverfisvænum og hagkvæmum kosti. „Þarna eru á ferðinni mjög gerðarlegar bleiur, ekki bara gamaldags klútur og næla. Þannig að þetta er í rauninni mjög sambærilegt við svokallaðar bréfbleiur.“

Facebook-síða framtaksins

Frétt mbl.is: Tilraun til taubleiuheimsmets

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert