Sjálfstæðari börn lengi á brjósti

Brjóstagjöf.
Brjóstagjöf. Skapti Hallgrímsson

Mun algengara er nú en áður að mæður hafi börn sín lengi á brjósti. Brjóstagjöf til lengri tíma leiðir til þess að börn verði sjálfstæðari þegar þau verða eldri, að sögn Arnheiðar Sigurðardóttur, aðjúnkts á heilbrigðisvísindasviði HÍ, og brjóstagjafarráðgjafa.

Hún segir að í brjóstamjólkinni séu efni sem styrkir varnarkerfi líkamans. „Ónæmiskerfi barnsins er að þroskast frá tveggja til fjögurra ára aldurs, eftir því hvaða sérfræðing þú spyrð,” segir Arnheiður. 

Ættum að hrósa konum með börn á brjósti

Nokkra athygli hefur vakið viðtal við Önnu Huldu Ólafsdóttur en hún er með fjögurra ára dóttur sína á brjósti. 

Arnheiður segir að konur sem séu lengi með börn sín á brjósti verði fyrir fordómum í samfélaginu. „Við ættum að vera duglegri að hrósa konum sem eru lengi með börn á brjósti. Það er svo mikill sparnaður af þessu fyrir heilbrigðiskerfið," segir Arnheiður. 

 „Oft eru ástæður fyrir langri brjóstagjöf þær að mæður hafa fundið það út að barnið sé ekki tilbúið til að hætta. Bæði ráði barnið líkamlega ekki við sýkingar sem upp koma og þá sé það ekki tilbúið að gefa upp á bátinn tengsl við móður. Ég tala ekki um þegar mæður eru í vinnu þá myndast svo mikil tengsl við það að gefa brjóst þegar þær koma heim,” segir Arnheiður.

Fullorðnir nota brjóstamjólk 

Hún segir að margsinnis hafi rannsóknir sýnt að börn sem eru lengi á brjósti verði síður veik. „Ekki endilega alveg til fjögurra ára. En við vitum það að mjólkin er verndandi og hún er nauðsynleg yngri börnum. Hún inniheldur ennþá þessi varnarefni sem eru líkamanum nauðsynleg óháð aldri,” segir Arnheiður.

Af hverju hættum við, mannfólkið, að fá okkur brjóstamjólk yfir höfuð? „Krabbameinssjúklingar eru farnir að nota hana erlendis, íþróttafólk og þeir sem glíma við annars konar veikindi. Ég bíð eftir því að hún verði tekin í notkun í auknum mæli meðal fullorðinna hér á landi,“ segir Arnheiður.

 Hún segir að fyrr á öldum hafi það verið algengt að börn hafi verið lengi á brjósti, jafnvel í 4-5 ár. Það hafi breyst í kringum árið 1930 þegar m.a. Oxford háskólinn gaf út leiðbeiningar um það hvernig ætti að haga brjóstagjöf. „Konur áttu að láta langt líða á milli gjafa. En við það hættir konan að mjólka. Það er mjög sjaldgæft að kona geti stýrt framleiðslu sinni og gefið bara á fjögurra tíma fresti,“ segir Arnheiður.

Sjálfstæð börn á brjósti 

Aðspurð um sálfræðileg áhrif þess að börn séu lengi á brjósti, jafnvel til 5 ára aldurs, þá segir Arneiður að rannsóknir sýni að þau börn séu sjálfstæðari en önnur börn. „En barnið er hins vegar háðara mömmu sinni á meðan það er yngra. Lenska var að ýta ætti börnum frá sér hér áður og að við það myndu þau verða sjálfstæðari. En það reyndist ekki vera rétt. Hins vegar þurfum við að tengjast börnunum okkar og það gerir þú fyrstu árin. Það er orðið of seint þegar börnin eru 13-14 ára,” segir Arnheiður.

Hún segir að Unicef mæli með brjóstagjöf í tvö ár eða lengur. 

Arnheiður Sigurðardóttir.
Arnheiður Sigurðardóttir.
Þessum finnst mjólkin ljómandi fín.
Þessum finnst mjólkin ljómandi fín. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert