Fjórðungur heimila á leigumarkaði

Valdís Þórðardóttir

Heimilum í leiguhúsnæði á almennum markaði hefur fjölgað umtalsvert síðan 2007. Það ár voru 15,4% heimila í leiguhúsnæði á almennum markaði en 24,9% árið 2013.

Árið 2007 var hlutfall heimila í leiguhúsnæði á almennum markaði svipað og hlutfall heimila í leiguhúsnæði í gegnum hverskyns búsetuúrræði á borð við félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaga og námsmannahúsnæði, eða 7,6% samanborið við 7,8%.

Fjölgunin var hinsvegar meiri í fyrrnefnda hópnum og árið 2013 voru 14,2% heimila í leiguhúsnæði á almennum markaði en 10,7% í búsetuúrræði, samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.

Þar kemur fram að leigjendum á almennum markaði hefur ekki aðeins fjölgað, heldur hefur samsetning hópsins breyst, bæði hvað varðar aldur, heimilisgerðir og tekjur.

Eftir 2007 óx hlutfall fólks á aldrinum 25-34 ára á almennum leigumarkaði hraðar en í eldri aldurshópum, úr 8,6% í 23,7%. Á sama tíma hækkaði hlutfall leigjenda á almennum markaði í lægsta tekjubilinu hraðar en á hærri tekjubilum, úr 9,5% í 28,9%.

Þá hækkaði hlutfallið á meðal heimila einhleypra með eitt eða fleiri börn úr 9,7% í 27,7%, sem er meiri aukning en mælist fyrir aðrar heimilisgerðir.

Í rannsókn Hagstofu Íslands er vísað til upplýsinga um hlutfall leigjenda á fasteignamarkaði í Evrópu en þær upplýsingar koma frá Eurostat. Samkvæmt þeim voru 13% Íslendinga á almennum leigumarkaði árið 2012. Það þýðir að Ísland var nokkurn veginn fyrir miðju dreifingarinnar í Evrópu en þó undir meðaltali bæði Evrópusambandsins og evrusvæðisins. Hæsta hlutfall leigjenda var í Sviss eða 51,6%. Næst á eftir komu Þýskaland með 38,6%, Danmörk með 35,4% og Holland með 32,1%.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert