Mál Gunnars Andersen í Hæstarétti

Munnlegur málflutningur í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Þórarni Má Þorbjörnssyni, fyrrverandi starfsmanns Landsbankans, hófst í Hæstarétti í morgun.

Gunnar áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hann var sakfelldur fyrir alvarlegt trúnaðarbrot í starfi og dæmdur til að greiða tvær milljónir króna í sekt.

Gunnar var talinn hafa brotið gegn þagnarskyldu þegar hann fékk Þórarin Má Þorbjörnsson, starfsmann í reikningshaldi Landsbankans til að afla gagna úr bókhaldi bankans um viðskipti Bogamannsins ehf. sem áður var í eigu Guðlaugar Þór Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir héraðsdómi hélt Gunnar því fram að háttsemi hans varðaði ekki refsingu samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Hann hafi leitað til Þórarins af persónulegum ástæðum þar sem hann taldi að sér vegið í starfi en ekki aðhafst sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Þá taldi hann almannahagsmuni hafa réttlætt að þagnarskyldu hans yrði vikið til hliðar þar sem hann hafði grun um að refsiverð háttsemi hefði átt sér stað með umræddum viðskipum og taldi að upplýsingar um þau ættu erindi við almenning.

Þórarinn var sakfelldur fyrir að miðla upplýsingum í starfi sínu hjá fjármálafyrirtæki og dæmdur til að greina eina milljón króna í sekt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert