Deildi upplýsingum um stúlkur

Lögreglumaður sem vikið hefur verið frá störfum er grunaður um að hafa misnotað aðstöðu sína til að afla gagna úr lögreglukerfi ríkislögreglustjóra, LÖKE, meðal annars um stúlkur. Samkvæmt heimildum mbl.is deildi hann viðkvæmum upplýsingum, sem hann aflaði, með félögum sínum í lokuðum hópi á samfélagsmiðlinum Facebook.

Mbl.is greindi fyrst frá málinu á sunnudag. Félagar mannsins, lögfræðingur hjá lögfræðistofunni Lex og starfsmaður Nova, eru ekki lengur við störf vegna rannsókn málsins og hafa þeir stöðu sakbornings í málinu.

Viðkvæmar upplýsingar um stúlkur

Eins og greint hefur verið frá á mbl.is átti lögreglumaðurinn í samskiptum við vini sína í gegnum lokaða hópinn.

Upplýsingarnar sem hann deildi voru viðkvæmar, persónulegar upplýsingar um stúlkur úr málaskrá lögreglunnar. Ekki er vitað hversu margir voru í þessum lokaða hópi á Facebook, hvort aðeins hafi verið um að ræða lögreglumanninn og félaga hans, lögfræðinginn og starfsmann Nova, eða hvort fleiri hafi haft aðgang að hópnum og þannig einnig séð upplýsingarnar.

Þá er ekki vitað hver tilgangur lokaða hópsins var. Einstaklingur nákominn lögreglumanninum komst á snoðir um samskipti félaganna, taldi þau mjög óeðlileg og lét lögreglustjóra vita.

Taldi samskipti mjög óeðlileg

Lögreglumanninum var vikið tímabundið frá störfum eftir að lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins barst ábending frá einstaklingi nákomnum lögreglumanninum, en hann starfaði hjá því tiltekna embætti.

Þegar í stað hófst rannsókn á málinu, maðurinn og að minnsta kosti tveir félagar hans voru handteknir og skýrslur teknar af þeim. Að því loknu var þeim öllum sleppt.

Vilja ekki tjá sig um málið

Lögregluyfirvöld hafa alfarið neitað að tjá sig um málið. Áður hefur verið greint frá því að málið kom upp fyrir páska en engar upplýsingar er að fá um framgang rannsóknar þess.

Ríkissaksóknari staðfestir að embættið hafi til rannsóknar ætluð brot lögreglumanns vegna uppflettingar og meðferðar á upplýsingum úr upplýsingakerfi lögreglunnar. Þá staðfestir hann einnig að tveir aðrir menn hafi réttarstöðu sakbornings við rannsóknina.

Lögfræðingnum og starfsmanni Nova vikið frá störfum

Lögfræðingurinn, sem hefur réttarstöðu sakbornings í málinu, starfar hjá lögfræðistofunni Lex. Hann er nú í leyfi frá störfum vegna rannsóknar málsins. Hann hefur starfað hjá Lex í skamman tíma.

Starfsmanni Nova, sem einnig hefur réttarstöðu sakbornings í málinu, hefur verið vikið úr starfi í tengslum við rannsóknina. Hann hefur starfað á tæknisviði fyrirtækisins frá árinu 2012. „Honum er ekki vikið úr starfi vegna brots á fjarskiptalögum því það er ekkert á þessari stundu sem bendir til þess að hann hafi lekið eða misnotað með öðrum hætti gögn úr gagnagrunnum Nova,“ sagði Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, í samtali við mbl.is.

Lögreglan rannsaki nú þann þátt málsins. „Honum er vikið úr starfi vegna trúnaðarbrests. Við teljum að með hvaða hætti hann blandast inn í rannsókn þessa máls hafi átt sér stað trúnaðarbrestur.“

Frétt mbl.is: Málið komst upp á Facebook

Frétt mbl.is: Brot lögreglumannsins til rannsóknar

Frétt mbl.is: Þrír með réttarstöðu sakbornings

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert