Áfangasigur í baráttu fyrir auknu atvinnuöryggi

Elliði Vigfússon, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vigfússon, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, fagnar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti samning um kaup Síldarvinnslunnar á öllum eignarhlutum Q44 í Bergi-Hugin ehf., sem á og gerir út togarana Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444 ásamt aflaheimildum.

Vestmannaeyjabær höfðaði málið á hendur Síldarvinnslunni og Q44. 

„Vestmannaeyjabær fagnar þessari niðurstöðu og lítur á hana sem áfangasigur í baráttu íbúa sjávarútvegssveitarfélaga fyrir auknu atvinnuöryggi. Dómurinn staðfestir rétt sveitarfélaga þegar kemur að kaupum og sölu fiskiskipa og aflaheimilda sem sannarlega geta svipt íbúa atvinnu þeirra og sveitarfélögin tilverugrunni sínum,“ segir í tilkynningu sem Elliði sendir fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar.

„Sveitarstjórnarfólk, þingmenn og embættismenn sveitarfélaga eru málsvarar íbúana og á þeim hvílir sú skylda að bregðast við þegar hagsmunir þeirra eru í hættu. Vestmannaeyjabær skorar því á þessa aðila að taka höndum saman í baráttu fyrir auknum rétti íbúa sjávarbyggða þegar kemur að atvinnuöryggi og sértækum skatti á atvinnulíf þeirra. Vestmannaeyjabær mun ekki láta sitt eftir liggja í þeirri baráttu,“ segir ennfremur.

Ógildir kaup Síldarvinnslunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert