Fer fram á upplýsingar um uppsagnir

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík, óskaði eftir upplýsingum um uppsagnir starfsfólks borgarinnar á árunum 2010 til 2012 á fundi borgarráðs í dag. Hún fór fram á að upplýsingarnar yrðu greindar eftir ári, sviði og kyni.

Þetta kemur fram í fundargerð borgarráðs en Sóley birtir einnig pistil um málið á heimasíðu VG.

Hún segir að það sé brýnt að þessar upplýsingar séu aðgengilegar almenningi fyrir kosningar eftir erfitt kjörtímabil þar sem hart hafi verið vegið að leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum.

„Leiða má líkum að því að mun fleiri konum hafi verið sagt upp en körlum og að þær hafi bitnað harðast á leikskólum borgarinnar.

Það er vont, ef rétt reynist, að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar hafi gengið harðast fram gagnvart þeim stéttum sem eiga að tryggja menntun, uppeldi og gott atlæti barna, sér í lagi svo stuttu eftir hrun. Auk þess má velta fyrir sér gagnsemi uppsagna á skóla- og frístundasviði, þar sem lægstu launin eru greidd að jafnaði,“ skrifar Sóley.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert