Tvær húsleitir á Selfossi

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á Selfossi framkvæmdi tvær húsleitir í gær í tengslum við tvö óskyld fíkniefnamál. Annað málið er töluvert umfangsmeira og þar fundust fíkniefni í söluskömmtum og voru tveir karlmenn handteknir í þágu rannsóknarinnar.

Að sögn lögreglu var öðrum manninum sleppt þegar í ljós kom að hinn maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, átti þau efni sem fundust í íbúðinni. Hann var yfirheyrður í tengslum við rannsóknina en sleppt að lokinni skýrslutöku.

Á heimili mannsins fundust um 50 grömm af hvítu efni í söluumbúðum auk eitthvað af kannabisefnum og læknalyfjum, sem lögreglan lagði hald á. Einnig fannst lítilræði af landa og loftskammbyssa í íbúðinni sem var ekki skráð á viðkomandi, en maðurinn var auk þess ekki með skotvopnaleyfi. Lögreglan lagði einnig hald á loftbyssuna og landann.

Lögreglan naut aðstoðar tveggja fíkniefnaleitarhunda við húsleitirnar í gær. Buster, sem er í eigu lögreglunnar á Selfossi, og Vinkils, sem tilheyrir fangelsinu Litla-Hrauni. Lögreglan segir að þeir hafi auðveldað lögreglu leit að efnunum sem höfðu verið falin víða í einu herbergi íbúðarinnar.

Í hinu málinu fannst lítilræði af tóbaksblönduðu kannabisefni til einkanota. Enginn var handtekinn í tengslum við þá rannsókn og gengið frá málinu á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert