Fjölmargir ferðamenn afpanta Íslandsferð

Ferðamenn neyðast til þess að abóka ferðir sínar til Íslands.
Ferðamenn neyðast til þess að abóka ferðir sínar til Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verkfall flugmanna hefur nú þegar haft mikil og slæm áhrif á ferðaþjónustuna. Hópar afpanta ferðir og ferðamenn sem ekki komast til síns heima á réttum tíma eru öskuillir. Ímyndarskaðinn er verulegur að sögn Bjarnheiðar Hallsdóttur, framkvæmdastjóra Kötlu DMI, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Kötlu Travel í München í Þýskalandi, sem fyrst og fremst selur hópferðir til þýskra ferðamanna.

„Það er um svo gríðarlega hagsmuni fyrir þjóðarbúið að ræða að ástandið er algjörlega óþolandi,“ segir hún.

„Tveir hópar sem áttu að koma til okkar á föstudag, annar sem ætlaði að vera í Reykjavík en hinn sem átti að fara í dagsferðir um landið, hættu alfarið við,“ segir Bjarnheiður. „Flugmenn tala um að landinu sé ekkert lokað, en það er nú bara víst þannig fyrir hópa, vegna þess að þú flytur ekkert hópa sem eiga bókað með Icelandair eitthvert annað með engum fyrirvara. Það fást einfaldlega ekki sæti,“ segir hún.

Gríðarlegt fjártjón

Fjártjónið er gríðarlegt að sögn Bjarnheiðar. „Þetta eru tapaðar tekjur fyrir alla sem að þessu standa. Það eru rútufyrirtæki, leiðsögumenn, ferðaskrifstofur, hótel, veitingastaðir. Bara þessir hópar fela í sér tugmilljóna tap,“ segir hún.

Bjarnheiður segir varla hægt að grípa til ráðstafana til þess að lágmarka tjónið. „Við getum ekki afbókað flugið þar sem mögulega verður samið. Við verðum í raun bara að bíða og sjá hversu harkalegt þetta verður.“

Hina hliðina á málinu segir hún vera ímyndarskaðann. „Þegar þú ert að ferðast og heyrir af einhverju sem er í gangi í landinu, verkföllum eða náttúruhamförum, þá upplifirðu sem svo að áfangastaðurinn sé óöruggur og þú ferð frekar eitthvað annað. Ég er handviss um að það fari að streyma inn afbókanir ef þetta heldur áfram.“

Margfeldisáhrif verkfallsins

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir verkfallið hafa margfeldisáhrif á ferðaþjónustuna. „Ferðamenn skila sér þar á meðal ekki á hótel og í afþreyingar eins og bókanir gerðu ráð fyrir. Ferðaskipuleggjendur innanlands og erlendis hafa miklar áhyggjur enda hefur þurft að afbóka hópa, bæði stóra og smáa," segir hún.

Hún segir fjárhagslegt tjón þjóðarbúsins vera verulegt. „Óvissa með samgöngur er með öllu óásættanleg en þær eru lykillinn af því að ferðaþjónustan geti dafnað nú þegar stærsta ferðasumar okkar er hafið.“ 

„Ábyrgð samningsaðila er mjög mikil og aldrei mikilvægara en nú að menn nái saman. Hver einasta klukkustund telur hjá okkur í ferðaþjónustunni,“ segir hún.

Verkfall flugmanna hefur margfeldisáhrif á ferðaþjónustuna þar sem færri ferðamenn …
Verkfall flugmanna hefur margfeldisáhrif á ferðaþjónustuna þar sem færri ferðamenn eru á landinu. Morgunblaðið/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert