Flugáætlunin var öll úr lagi gengin

Icelandair þota leggur af stað
Icelandair þota leggur af stað Þórður Arnar Þórðarson

Meðal ástæðna fyrir því að Icelandair felldi í gær niður jafn margar flugferðir og raun ber vitni var sú að flugáætlun var öll úr lagi gengin þar sem fella þurfti niður ellefu flug til og frá Evrópu, að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. 

 Haf­steinn Páls­son, formaður Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að Icelanda­ir hefði hætt við átta ferðir, sem þó hefðu verið full­mannaðar.

„Ástæður þess að ferðirn­ar voru felld­ar út vit­um við ekki. Hvað varðar aðrar ferðir sem voru tekn­ar af áætl­un er veru­leik­inn sá að vakta­plön­in ganga ekki upp, menn ekki bún­ir að fá þann hvíld­ar­tíma sem áskil­inn er, hafa ráðstafað sér annað og svo fram­veg­is,“ segir Hafsteinn í samtali við Morgunblaðið í dag. 

Fyrr þennan sama dag þurfti að fella niður 11 flug til og frá Evrópu og þau flug sem ekki voru felld niður urðu fyrir miklum töfum, segir Guðjón í samtali við mbl.is.

„Flugáætlun var þannig öll úr lagi gengin og farþegar félagsins, tengifarþegar og aðrir komust ekki áfram. Fyrirsjáanlegt var að N-Ameríkuflugið í gærkvöldi og nótt yrði í mikilli seinkun sem aftur hefði valdið því að flug í dag, mánudag hefði farið úr skoðum.

Forsendur fyrir þessum 6 flugum voru af þessum sökum brostnar vegna verkfallsaðgerðanna og það var það fellt niður með um 8 klst. fyrirvara til að unnt væri að láta vita og lágmarka skaða farþega,“ segir Guðjón Arngrímsson.

Einhverjar tafir urðu á flugi Icelandair í morgun en ekki miklar. Næsta vinnustöðvun flugmanna hjá Icelandair hefur verið boðuð á föstudaginn milli klukkan 6 og 18 ef ekki verður búið að ná samkomulagi í deilunni. Næsti fundur samninganefndanna hefur verið boðaður síðar í dag.

Í gær var ritað á vef Félags íslenskra atvinnuflugmanna að það sé alrangt að flugmenn Icelandair Group standi í skæruaðgerðum gagnvart félaginu.

„Flugmenn eru í löglega boðuðum verkfallsaðgerðum sem meðal annars er yfirvinnubann sem felur í sér að menn vinna ekki yfirvinnu.

Sökum seinkana undanfarinna daga hefur vakttími flugmanna riðlast sem hefur valdið keðjuverkandi áhrifum á önnur flug. Icelandair Group er undirmannað um þessar mundir og hefur því ekki getað mannað öll þau flug sem áætluð hafa verið.

Icelandair Group tilkynnti um niðurfellingu 10 fluga til Norður-Ameríku 11.maí.  Af þessum 10 flugum voru 8 þeirra fullmönnuð og lýsir FÍA undrun sinni á þessari aðgerð Icelandair Group en hún er farþegum félagsins sem og hluthöfum til mikils skaða. Með þessari aðgerð og kynningu á henni er verið að fara með rangt mál í fjölmiðlum til þess eins að sverta orð flugmanna.  Slík aðgerð er sannarlega ekki til þess að ýta undir lausn þessarar deilu,“ segir á vef FIA.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert