Sló leigubílstjóra í stað þess að borga

Jim Smart

Hæstiréttur hefur staðfest sjö mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjaness yfir 25 ára karlmanni sem sló leigubílstjóra með glerflösku í stað þess að greiða fyrir akstur. Þá var honum gert að greiða leigubílstjóranum 305 þúsund krónur í miskabætur.

Óumdeilt var í málinu að maðurinn fór með leigubifreið 19. desember 2011 frá miðbæ Reykjavíkur til Hafnarfjarðar og með honum hafi verið tveir félagar hans, annar kallaður Bangsi. Mennirnir stigu út úr bifreiðinni og skrúfaði þá leigubílstjórinn niður rúðu sína þar sem hann taldi að mennirnir ætluðu að greiða honum í gegnum hana. Þá sló maðurinn leigubílstjórann í andlitið með glerflöskunni.

Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að hæfileg refsing væri sjö mánaða fangelsi, s.s. þar sem um hættulega atlögu var að ræða sem beindist að höfði leigubílstjórans, og að árásin var með öllu tilefnislaus.

Hins vegar segir að brotið hafi verið framið 19. desember 2011 og ekki annað að sjá af gögnum málsins en að rannsókn málsins hafi verið lokið í janúar 2012. Ákæra hafi hins vegar ekki verið gefin út fyrr en í júlí 2013. Þessi dráttur hafi ekki verið manninum að kenna en af þessum þessum sökum þótti rétt að skilorðsbinda sex mánuði refsingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert