ESB-málið stjórnarflokkunum „dýrkeypt“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ritstjórar Evrópuvaktarinnar rita og birta í dag báðir harðorða pistla um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og afdrif þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, um afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

Ástæðan er viðtal sem tekið var við Sigmund Davíð og birtist í Morgunblaðinu í dag. Í því kemur fram að ekkert hafi verið ákveðið um framhald þingsályktunartillögunnar, en hún fékk ekki afgreiðslu fyrir þinglok. „Þessi tillaga snerist um að árétta það sem ríkisstjórnin hefur þegar sagt, að hún telji ekki að það eigi að standa í þessum viðræðum,“ sagði Sigmundur Davíð.

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og annar ritstjóra Evrópuvaktarinnar, tekur málið upp á vefnum. „Svör forsætisráðherra vekja spurningar um hvers vegna í ósköpunum hann vildi að fram kæmi stjórnartillaga til þingsályktunar um afturköllun þessa mikla ágreiningsmáls telji hann það í raun svo litlu skipta að alþingi samþykki á formlegan hátt fyrir sitt leyti að afturkalla ESB-umsóknina. Varla var það leikaraskapur? Pólitískt reynsluleysi skýrir ef til vill alla meðferð þessarar tillögu. Málsmeðferðin hefur hvað sem öðru líður orðið stjórnarflokkunum dýrkeypt og til álitshnekkis,“ segir Björn.

Þá segir Björn að verði uppgjöf niðurstaða alþingis í ESB-málinu undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé samhljómur milli þess vandræðagangs og þess sem gerðist undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur „þegar haldið var umhugsunar- og undirbúningslaust til Brussel.“

Utanríkisráðherra sammála?

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og núverandi ritstjóri Evrópuvaktarinnar, tekur málið einnig upp á sama vef. Í pistli sínum spyr Styrmir: „Er það misskilningur að kjarninn þessarar tillögu hafi verið sá, að Alþingi, sem tók ákvörðun um að leggja aðildarumsókn að Evrópusambandinu fram, drægi þá umsókn til baka? Var tillagan bara „árétting“? Hvers vegna var það ekki sagt strax?“

Þá veltir Styrmir því fyrir sér hvernig skilja beri ráðherrans um það að ekki hafi verið rætt sérstaklega „hvort þörf sé á því“ að leggja tillöguna fram aftur í haust. „Sigmundur Davíð hefur á ferli sínum sem forsætisráðherra sýnt hæfileika í að útskýra stefnu ríkisstjórnarinnar á þann veg að fólk hefur átt auðvelt með að skilja. Að þessu sinni brást honum bogalistin. Það er ómögulegt að skilja hvað ráðherrann er að fara.“

Í öðrum pistli sínum um málið í dag spyr svo Styrmir. „Ætli utanríkisráðherrann sjálfur sé sammála þessari málsmeðferð?“

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert