Segja „leiðréttinguna“ ná til of fárra

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. mbl.is/Ómar

Nýsamþykktar skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar koma ekki til móts við stóran hluta heimila landsins, m.a. þá sem eru á leigumarkaði. Á aðalfundi BSRB á föstudag var samþykkt ályktun um að mótmæla þessu.

BSRB telur að til að markmið „leiðréttingarinnar“ nái fram að ganga þurfi hún að ná til allra lána sem íþyngja heimilum vegna hækkunar verðbólgu, en ekki eingöngu til lána vegna íbúðarhúsnæðis. Telji ríkisstjórnin að forsendubrestur hafi orðið vegna þess að verðbólga var hærri en við mátti búast þá hljóti það að gilda einnig um aðra verðtryggða samninga, þ.m.t. varðandi húsaleigu og námslán.

Þótt aðgerðin muni bæta stöðu margra heimila í landinu munu leiðréttingarnar gagnast þeim sem mest þurfa á að halda lítið eða ekki neitt. Aðalfundur BSRB mótmælir þeirri mismunun sem í aðgerðunum felst og krefst þess að úr verði bætt,“ segir í ályktuninni.

Samræmdar húsnæðisbætur í stað vaxta- og leigubóta

Þá hvetur BSRB stjórnvöld til að koma samræmdum húsnæðisbótum til framkvæmda sem fyrst, í stað sérstakra vaxta- og leigubóta. Opinberar húsnæðisbætur, óháð því hvort fólk á eða leigir húsnæðið sem það býr í, stuðli að frekari jöfnuði á húsnæðismarkaði og mismuni fólki ekki eftir búsetuformi.

Stefna stjórnvalda í húsnæðismálum verður að taka mið af nýjum aðstæðum sem skapast hafa á Íslandi. Þess vegna er brýnt að koma til móts við hina miklu eftirspurn eftir leiguhúsnæði og jafna stuðning milli fólks á eigna- og leigumarkaði, líkt og gert er ráð fyrir í nýrri skýrslu um framtíðarskipan húsnæðismála á Íslandi,“ segir í ályktun BSRB.

„Öruggt húsnæði, hvort sem um er að ræða leiguhúsnæði eða séreign, er einn af hornsteinum almennrar velferðar. Eitt af hlutverkum stjórnvalda er að tryggja öllum jafnan stuðning svo hver og einn geti búið í viðunandi húsnæði á viðunandi kjörum til framtíðar óháð búsetuforminu.

Sjá nánar á vef BSRB

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert