Sundabraut formlega á dagskrá

Á fundi sínum í dag samþykkti ríkisstjórnin tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að hefja formlegar viðræður ríkisins og einkaaðila um undirbúning, hönnun og lagningu Sundabrautar í Reykjavík í því skyni að flýta mögulegum framkvæmdum. Yrði byggt á tillögum stýrihóps ráðherra sem hefur haft það hlutverk að fara yfir hvaða samgönguframkvæmdir koma til greina í samvinnu ríkis og einkaaðila.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Segir þar ennfremur að fjögurra ára samgönguáætlun liggi nú fyrir Alþingi og verður hún tekin til umfjöllunar þegar þing kemur saman að nýju í haust. Þar er meðal annars fjallað um fyrirhugaða Sundabraut og að kostir einkaframkvæmdar verði skoðaðir.

Í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga segir einnig að umtalsvert fé þurfi til að viðhalda og byggja upp samgöngukerfi landsins á næstu árum og því talið rétt að huga að aðkomu einkaaðila í samstarfi við opinbera aðila. Í því sambandi verði litið til góðrar reynslu margra nágrannaþjóða af slíku samstarfi fjárfesta, rekstraraðila og ríkisvalds.

Ráðherra skipaði stýrihóp um miðjan apríl sem hefur það hlutverk að fara yfir hvaða samgönguframkvæmdir koma til greina í samvinnu ríkis og einkaaðila. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að ljóst sé að leita þurfi leiða til að fjármagna ýmis og brýn samgönguverkefni með öðru móti en beinum framlögum úr ríkissjóði.

Um leið og minna fé hefur á síðustu árum verið veitt í stofnframkvæmdir í vegakerfinu fer þörfin sífellt vaxandi og því var ákveðið að kanna rækilega hvaða framkvæmdir unnt væri að ráðast í með samvinnu ríkis og einkaaðila, allt frá undirbúningi og hönnun og að rekstri og þjónustu við slík mannvirki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert