Skortur á málefnalegum umræðum

Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Sam­kvæmt nýrri skoðana­könn­un MMR um fylgi stjórn­mála­flokka fyr­ir kom­andi borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar í Reykja­vík mæl­ist Sjálf­stæðis­flokk­ur með 21,1%. Yrðu þetta niður­stöður kosn­ing­anna myndi flokkurinn fá fjóra borg­ar­full­trúa.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segist ekki aðeins vera óánægður með niðurstöður könnunarinnar heldur vilji hann sjá flokk sinn gera mun betur á kjördag.

„Við erum með mjög góða stefnu sem á mikið erindi við borgarbúa,“ segir Halldór en að hans mati hefur kosningabaráttan einkennst af einhverju allt öðru en stefnumálum stjórnmálaflokka og málefnalegum umræðum. „Þegar við setjum fram okkar stefnumál þá höfum við nær enga til þess að ræða þau við því það er engin umræða um málefnin. Það er bara eitthvað allt annað uppi.“

Segir hann Sjálfstæðisflokkinn hafa að undanförnu unnið hörðum höndum við að kynna áherslur sínar fyrir kjósendum í Reykjavík og að stefna flokksins taki utan um bætta þjónustu við borgarbúa með auknu valfrelsi. „Við leggjum áherslu á bættan rekstur og lækkanir skatta og gjalda á borgarbúa. Þetta eru atriði sem skipta miklu máli og eru aðrir flokkar ekki að boða þetta.“

Spurður hvað gæti orsakað þessa fylgismælingu Sjálfstæðisflokksins í könnun MMR bendir Halldór á að mörg hitamál hafi að undanförnu brunnið á borgarbúum. Nefnir hann t.a.m. þjónustukönnun Capacent sem tók til sextán stærstu sveitarfélaga landsins en þar fékk Reykjavíkurborg falleinkunn.

„Svo vilja 72% Reykvíkinga að Reykjavíkurflugvöllur sé áfram í Vatnsmýrinni en fólk virðist láta eitthvað annað ráða í skoðanakönnunum,“ segir Halldór.

Sam­kvæmt könn­un MMR þá mæld­ist fylgi flokk­anna sem bjóða fram í kom­andi borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um í Reykja­vík eft­ir­far­andi: Sam­fylk­ing 29,5%, Björt framtíð 24%, Sjálf­stæðis­flokk­ur 21,1%, Vinstri-græn 9%, Pírat­ar 8,2%, Fram­sókn­ar­flokk­ur og flug­vall­ar­vin­ir 5,3%, Dög­un 2,6% og Alþýðufylk­ing­in 0,2%.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert