Hagar orðið fyrir grófum aðdróttunum

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga.

Finnur Árnason, forstjóri verslunarfélagsins Haga, segir að félagið og stjórnendur þess hafi orðið fyrir grófum aðdróttunum frá þeim sem standa vörð um landbúnaðarkerfið. Varðmennirnir vinni jafnframt markvisst gegn hagsmunum viðskiptavina félagsins.

Í ávarpi sínu í ársskýrslu Haga, sem kom út í byrjun vikunnar, segir Finnur að það muni hins vegar ekki stoppa baráttu félagsins fyrir auknu verslunarfrelsi og bættum hag viðskiptavina, „enda finnum við fyrir mjög mikilli hvatingu frá viðskiptavinum sem vilja knýja fram breytingu á úreltu landbúnaðarkerfi,“ eins og hann orðar það.

Hann segir að viðskiptavinurinn sé í öndvegi í daglegum störfum félagsins. „Við vitum að ef við hugsum ekki vel um hann og bjóðum ekki rétta vöru á réttu verði, snýr hann annað. Það skiptir okkur miklu máli að finna það traust sem dagleg viðskipti við fyrirtækin okkar staðfesta,“ segir hann.

Styrkingin komið fram í lægra verðlagi

Félagið hafi unnið að bættum hag viðskiptavina, meðal annars með því að berjast fyrir auknu verslunarfrelsi og breytingum á núverandi landbúnaðarkerfi og þar með lægra vöruverði.

Finnur bendir á að einn af þeim þáttum sem hafi verið notaður í áróðri gegn félaginu sé að gengisstyrking íslensku krónunnar hafi ekki skilað sér í lægra verðlagi verslana félagsins.

„Framlegð félagsins undanfarin ár staðfestir svo ekki verður um villst að álagning félagsins fylgir sveiflum íslensku krónunnar. Styrking krónunnar hefur því komið fram að fullu í lægra verðlagi verslana okkar. Þrátt fyrir að álagning Haga liggi fyrir opinberlega fjórum sinnum á ári verður félagið stöðugt fyrir árásum frá aðilum sem neita að horfa á opinberar staðreyndir. Slíka gagnrýni er því tæpast hægt að taka alvarlega,“ segir forstjóri Haga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert