Stelpum líður verr en strákum

Stelpur í 10. bekk eru mun líklegri til þess að …
Stelpur í 10. bekk eru mun líklegri til þess að glíma við vanlíðan samkvæmt nýrri skýrslu mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenskar stúlkur eru mun líklegri til þess að búa yfir lægra sjálfsmati og finna fyrir meiri áhyggjum og almennri vanlíðan en íslenskir strákar. Þetta kemur fram í nýrri stefnumarkandi skýrslu Reykjavíkurborgar. Skýrslan ber heitið „Út fyrir boxið“ og var unnin af starfshóp undir stjórn Auðar Magndísar Auðardóttur. 

Markmið skýrslunnar er að greina hvernig efla má sjálfstraust stelpna og vinna gegn hamlandi staðalmyndum í lífi barna og ungmenna á skapandi og árangursríkan hátt. Reykjavíkurborg hefur ákveðið að leggja fjórar milljónir króna í að fylgja verkefninu eftir samkvæmt frétt á vef borgarinnar.

Bilið breikkar með aldrinum

Í skýrslunni kemur fram að strákar og stelpur séu nokkuð jöfn í flestum mælingum er varða líðan og sjálfsmat í yngri bekkjum grunnskóla. Þetta breytist hins vegar hratt þegar upp í efri bekkina er komið, en niðurstöðurnar eru byggðar á svörum 3385 nemenda í 6. - 10. bekk við spurningalistum.

Eitt atriða sem nemendur áttu að taka afstöðu til var hvort þeir hefðu almennt jákvætt viðhorf gagnvart sjálfum sér. Í 6. bekk voru um 95% stelpna sammála fullyrðingunni og tæplega 90% stráka, en þegar í 10. bekk var komið var hlutfall stelpna komið niður í um 75% á meðan strákar höfðu risið lítillega í nánast slétt 90%.

Það sama var uppi á teningnum þegar nemendur lögðu mat á fullyrðinguna „stundum finnst mér ég einskis virði“. Þar voru kynin nánast jöfn í 6. bekk og svöruðu um 30% játandi. Í 10. bekk svöruðu hins vegar 20% stráka játandi á móti rúmlega 40% stelpna. Þróunin var eins þegar spurt var um vellíðan, áhyggjur og hvort nemendum þættu þeir misheppnaðir.

Staðalmyndir mikill áhrifavaldur

Áhrif staðalmynda á ungmenni voru skoðuð sérstaklega í skýrslunni, en þar eru staðalmyndir skilgreindar á eftirfarandi hátt: „Þær hugmyndir sem við gefum okkur að gildi um einstaklinga sem tilheyra ákveðnum hópi. Þær eru oftast einfaldar, útbreiddar og yfirleitt neikvæðar.“

Staðalmyndir um útlit eru tilteknar, en þær eru taldar hafa mikil áhrif á líðan og sjálfsmat stelpna. Dæmi eru tekin úr íslenskri rannsókn þar sem í ljós kom að 40% stelpna í 10. bekk, í eðlilegri þyngd, voru annaðhvort í megrun eða að íhuga megrun. Strákar virtust almennt mun sáttari við sína þyngd, en þetta er rakið til áhrifa kynþroska á hvort kynið fyrir sig.

Á meðan kynþroskinn uppfylli gjarnan óskir margra stráka um að þyngjast og stækka vinni hann jafnan á móti ósk fjölmargra stelpna um að léttast.

„Kvenleg dyggð“ metin minna

Í skýrslunni kemur fram að viðhorf ungmenna til hlutverka kynjanna inni á heimilinu séu íhaldssamari en áður. Þannig telji t.a.m. 40% drengja að karlar eigi að ganga framar konum í störf og jafnframt eigi þeir að ráða meiru í sambúð karls og konu.

Einn orsakavalda er talinn vera kynjað barnaefni. Þar séu karlkyns sögupersónur sýndar sem hetjur sem berjist við kraftmikla andstæðinga á meðan konur hafi frekar það hlutverk að laða að sér sterka karla með því að vera „góðar, fallegar og fórnfúsar“. Minnt er á mikilvægi þess að fjölskyldur velji vel barnaefni sem ekki ýti undir staðlaðar kynjaímyndir.

Gildi kvenleika og „kvenleg dyggð“ er almennt metin minna en það sem haldið er að strákum samkvæmt skýrslunni. Þannig fái „strákalegar“ stelpur mun meiri virðingu en „stelpulegir“ strákar. „Strákastelpurnar“ geti uppskorið aðdáun fyrir að vera harðar af sér og góðar í íþróttum á meðan strákar sem leiki sér að dúkkum og máti prinsessubúninga þyki „skrítnir“.

Evrópumet í klámáhorfi

Klám og klámvæðing skipa stóran sess í skýrslunni, en þar er klám skilgreint sem „kynlíf sem felur í sér niðurlægingu og ofbeldi þar sem virðing og réttur einstaklingsins er virtur að vettugi“. Tekið er fram að íslenskir strákar á aldrinum 16-19 ára eigi Evrópumet í klámáhorfi. Þannig horfi 76% þeirra á klám einu sinni í viku eða oftar.

Þetta er talið mynda óraunsæjar útlitskröfur stráka til stelpna og valda því að þeir eigi í erfiðleikum með að finna sér „ásættanlegan“ maka. Aftur á móti minnki þau gildi sem koma fram í klámi sjálfstraust stelpna, láti þær skammast sín fyrir líkama sinn og skapi jafnvel vandamál eins og þunglyndi og átraskanir.

Stelpur á jaðrinum

Sérstakur kafli er í skýrslunni um „stelpur á jaðrinum“, en þar er m.a. rætt um hinsegin stelpur.

Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn hefur allt að þriðjungur samkynhneigðra ungmenna í 10. bekk hafi reynt sjálfsvíg. Þarna er hins vegar talsverður munur milli kynja, en 18% samkynhneigðra stráka höfðu reynt sjálfsvíg einu sinni til fjórum sinnum á móti 40% stelpna.

Í skýrslunni er tekið fram að lífsgæði samkynhneigðra stelpna séu nokkru verri en samkynhneigðra stráka, og nauðsynlegt sé að taka mið af þessari stöðu þeirra þegar unnið er að því að bæta lífsgæði og líðan stelpna.

Í skýrslunni er ítrekað að allir tapi á hinu svokallaða kynjakerfi. Vitnað er í efni Gerðar Bjarnadóttur og Guðnýjar Guðbjörnsdóttir þar sem segir að kynjakerfið sé heiti á þeim aldagömlu hefðum sem setji bæði karla og konur á afmarkaða bása. Það sé gegnsýrt menningu okkar og viðhaldi stöðugt sjálfu sér.

Frétt á vef Reykjavíkurborgar: Aðgerðir gegn staðalmyndum

Skýrslan í heild: Út fyrir boxið

Frétt mbl.is: Þriðjungur reynt sjálfsvíg

Auður Magndís Auðardóttir leiddi starfshóp um gerð skýrslunnar
Auður Magndís Auðardóttir leiddi starfshóp um gerð skýrslunnar mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert