Ísland í leynilegum viðræðum um TISA

TISA samningur - Mikil leynd hvílir yfir viðræðum samningsins.
TISA samningur - Mikil leynd hvílir yfir viðræðum samningsins. Úr skjalinu einsog birt af Wikileaks

Ísland er eitt þeirra rúmlega fimmtíu ríkja sem eiga í hinum svokölluðu TISA viðræðum sem ætlað er að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa. Þar með talin eru öll ríki Evrópusambandsins og Bandaríkin. Wikileaks birti leynilegt uppkast að TISA samningnum í gær. Kjarninn fjallaði um það í nýjustu útgáfu sinni í gær og birti samninginn í samstarfi við Wikileaks. Mikil leynd hefur hvílt yfir viðræðunum.

Eins og kemur fram í uppkastinu er um að ræða samning sem ætlað er að auka viðskiptafrelsi stærstu þjónustufyrirtækja heims. Meðlimir TISA, eða Trade in Services Agreement, búa yfir stærstu þjónustumörkuðum heims og hampa tveimur þriðju af vergri landsframleiðslu efnahags heimsins.

Uppkastið sem Wikileaks birti átti að vera leynilegt þar til fimm árum eftir að samningurinn hefði tekið gildi eða fimm árum eftir að viðræðum lyki ef þær skiluðu ekki árangri. Þessu er lýst sem „þýðingarmiklu bragði“ gegn gagnsæi samningsaðila á síðu Wikileaks.

Alþjóðasamtök starfsfólks í almannaþjónustu (PSI) hafa gagnrýnt TISA-viðræðurnar harðlega, samkvæmt grein KjarnansÍ skýrslu sem þau gáfu út vegna þeirra í lok apríl síðastliðins segir meðal annars að viðræðurnar séu vísvitandi tilraun til að auka hagnað stærstu og ríkustu fyrirtækja og þjóðríkja heims á kostnað þeirra sem verst hafa það. Verði samkomulagið að veruleika muni það auka ójöfnuð gríðarlega.

Umrætt uppkast að samningnum var unnið í aðdraganda sjöttu lotu TISA viðræðnanna, sem var haldin í Genf í Sviss 28. apríl - 2. maí í ár. Næsta lota á að fara fram á næstu dögum, eða 23. - 27. júní, samkvæmt því sem kemur fram í uppkastinu.

Skjalið sem um ræðir má nálgast hjá Wikileaks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert