Hellinum Búra lokað

Hellinn Búra er að finna á Reykjanesinu.
Hellinn Búra er að finna á Reykjanesinu. Morgunblaðið/Kristinn

Hellinum Búra á Reykjanesi hefur nú verið lokað. Sigurður Sveinn Jónsson, sem á sæti í stjórn Hellarannsóknarfélags Íslands, segir lokunina vera vegna öryggis- og verndunarsjónarmiða.

Verulega sé farið að sjá á umhverfi og hellinum sjálfum vegna aðsóknar í hellinn að undanförnu og því hafi félagið gripið til þessa ráðs í umboði landeiganda.

Í samtali við mbl.is segir Sigurður að Hellarannsóknarfélagi Íslands beri að sinna verndunarhlutverki sínu og því hafi hellinum verið lokað. „Það hefur sýnt sig á síðustu misserum að það er gríðarlegur umferðarþungi í hellinn. Umhverfið og hellirinn hefur látið á sjá,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Margir koma í hellinn og ganga illa um

Sigurður segir að mikill fjöldi fólks fari í hellinn og því fylgi mikil áníðsla. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki selji ferðir í hellinn og segir Sigurður að illa hafi verið gengið um hellinn. Hann segir ágang sem þennan þekkt vandamál í ferðaþjónustu hér á landi.

Margir hafi gripið til þess ráðst að setja upp hindranir og rukka fyrir aðgang að ferðamannastöðum en í þessu tilviki hafi aðeins verið gripið til lokunar.

Ekki hefur verið ákveðið hversu lengi hellirinn verður lokaður en honum var lokað fyrir tæpum mánuði síðan. Sigurður bendir á að fordæmi séu fyrir því að landeigandi grípi til þess að loka fyrir aðgang að náttúrufyrirbærum, til að mynda í Lofthelli í Mývatnssveit en þar var hellinum lokað til að stemma stigu við umferð fólks í hellinn nema gegn greiðslu. Þá hafi hellinum Gjögri einnig verið lokað fyrir um mánuði síðan.

Sigurður segist ekki vita til þess að eigendur ferðaþjónustufyrirtækja hafi beðið landeiganda um leyfi áður en þeir komu með hópa í Búra og veltir hann jafnframt fyrir sér hvort lagalegur grundvöllur sé fyrir heimsóknum af þessu tagi. 

„Göng ástarinnar“ í Leitahrauni

Hellirinn Búri er í Leitahrauni á Reykjanesi. Hann fannst árið 1992 og var hann þá talinn 40 metra langur. Árið 2005 tókst að opna ný göng í hellinum og þá kom í ljós að hann er um 980 metrar að lengd. 

National Geographic fjallaði nýlega um Búra í tengslum við umfjöllun um spennandi gönguleiðir. Þar er hellirinn meðal annars kallaður „göng ástarinnar“ og sagður einn sá fallegasti í heiminum.

.„Les­end­ur eru leidd­ir í gegn­um hell­inn, yfir ís, í gegn­um hraun­helli sem líkt er við yf­ir­gefna lest­ar­stöð og hraungryfju í lok­in. Að koma út úr hell­in­um á ný, út í sól­ar­ljósið, sé líkt og að end­ur­fæðast,“ sagðimeðal annars í umfjölluninni. 

Frétt mbl.is: Búri einn sá fallegasti í heiminum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert