Búið að bjarga fólkinu

Þetta er ekki í fyrsta skiptið skipið Haukur lendir í …
Þetta er ekki í fyrsta skiptið skipið Haukur lendir í vanda við Lundey en hér má sjá björgunaraðgerðir frá árinu 2012 þegar skipið strandaði á grynningum við eyjuna. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Allir sem voru um borð í hvalaskoðunarskipinu sem strandaði við Lundey nú rétt fyrir klukkan 18 eru komnir frá borði, en alls voru þeir 21 talsins. Eru þeir allir á leið í land á rib-bátum á meðan skipstjórinn var fluttur um borð í annað hvalaskoðunarskip á svæðinu.

Þetta segir Guðmundur Salómonsson hjá Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík í samtali við mbl.is.

Aðstæður eru nokkuð góðar á svæðinu og rólegt í sjóinn. Skipið var farið að halla um 50 gráður en ekki var orðið vart um neinn leka. Verður farið út í skipið með dráttartaug til þess að athuga hvort hægt sé að draga það út aftur, en farið er að halla verulega undan því og því óvíst hvort það sé mögulegt. 

Mikill viðbúnaður er í gangi á staðnum en þar er lögregla, björgunarsveitir og sjúkrabílar auk annarra skipa í grenndinni sem komu að slysstað. 

Að sögn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra voru 19 farþegar um borð og tveir í áhöfn skipsins. Um er að ræða hvalaskoðunarskipið Hauk, en það strandaði við Lundey kl. 17:58 og kl. 18:27 hafði öllum verið bjargað frá borði óhultum. Í tilkynningu frá almannavarnadeild segir að viðbragðsáætlun vegna sjóslysa á Skjálfanda hafi verið virkjuð og viðeigandi bjargir boðaðar í samræmi við áætlunina.

Sjá frétt mbl.is: Mikill viðbúnaður vegna strands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert