Fyrsta manntalið síðan 1981

Frá fundi Hagstofunnar í morgun.
Frá fundi Hagstofunnar í morgun. mbl.is/Hjörtur

Manntöl eru stærsta og viðamesta verkefni sem hagstofur ráðast í. Þetta kom fram í máli Ólafs Hjálmarssonar Hagstofustjóra á blaðamannafundi í morgun þar sem kynnt var nýtt manntal á Íslandi sem unnið hefur verið á undanförnum árum en það miðast við 31. desember 2011.

Hér er á ferðinni fyrsta hefðbundna manntal í rúmlega 30 ár en síðast var slíkt manntal gert árið 1981. Samtals hafa um 20 manntöl varðsveist sem gerð hafa verið frá því að fyrsta manntalið var framkvæmt árið 1703 undir verkstjórn Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en það er elsta varðveitta heimildin í heiminum þar sem skráðir eru einstaklingar heillar þjóðar. Næst var manntal ekki tekið fyrr en 1762 og síðan 1769, 1785 og 1801. Eftir það var manntal tekið á fimm ára fresti á árunum 1835-1860 en eftir það á tíu ára fresti til 1960. Manntalið 1970 féll niður en síðasta manntalið sem fyrr segir var framkvæmt 1981.

Manntalið að þessu sinni var í fyrsta sinn framkvæmt með rafrænum hætti þar sem einkum var byggt á gögnum frá opinberum stofnunum og gert í tilefni af 100 ára afmæli Hagstofunnar. Manntalið var framkvæmt á grundvelli reglugerða Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og með styrk frá sambandinu. 

Mannfjöldi á Íslandi var 315.556 manns 31, desember 2011 samkvæmt manntalinu sem skiptust á 118.617 heimili en að auki voru 8.158 einstaklingar á stofnunum eða heimilislausir eins og mbl.is greindi frá í morgun. Mannfjöldinn skiptist ennfremur í 81.380 fjölskyldur auk 60.454 karla og kvenna sem stóðu utan við fjölskyldukjarna. Taldar voru alls 117.939 hefðbundnar íbúðir sem voru í notkun og auk þess 8.273 slíkar íbúðir sem ekki voru nýttar til búsetu.

Fram kom á fundinum að næst væri gert ráð fyrir að tekið yrði manntal á Íslandi árið 2020 en samkvæmt reglugerðum Evrópusambandsins væri gert ráð fyrir að tekið væri manntal á tíu ára fresti.

Mannfjöldinn skoðaður rafrænt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert