Neita að taka þátt í „sýndarútboði“

Bílar og fólk segir að stjórnendur Strætó hafi of rúma …
Bílar og fólk segir að stjórnendur Strætó hafi of rúma heimild til að velja sér þóknanlegan verktaka og of frjálsar heimildir með breytingar á umfangi akstursins. mbl.is/Hjörtur

Fyrirtækið Bílar og fólk hefur ákveðið að hætta við þátttöku í nýju útboði á vegum Strætó bs um akstur með fatlaða á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið segir að um sýndarútboð sé að ræða og krefjast þess að því verði frestað.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Kjartan Ólafsson, framkvæmdastjóri Bíla og fólks, sendi fjölmiðlum. Þar segir að til standi að opna útboðið á morgun. 

Þá segir, að stjórnendur félagins krefjist þess að útboðinu verið frestað á meðan kannað sé betur með útreikninga og upplýsingar frá Félagi hópferðaleyfishafa þess efnis að ákveðnum verktaka hafi verið greiddar hundruð milljóna umfram samninga í tveimur tilboðum, annars vegar útboði á vegum Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi og Strætó bs. og hins vegar útboð á vegum Strætó fyrir akstur innanbæjar í Reykjavík.

„Í útboði á vegum SASS og Strætó bs var gengið fram hjá tilboðum lægstbjóðanda sem voru Bílar og fólk ehf og Hópferðamiðstöðin ehf en þess í stað samið við Hópbíla ehf. Nú hafa dómstólar úrskurðað um umræddur gjörningur var ólöglegur. Að fá upplýsingar þess efnis að greiðslur til verktaka hafi auk þess verið um 100 m. hærri en gengið var út frá í ólögmætum samningum er grafalvarlegt mál. Bílar og fólk ehf voru auk þess næstlægstir í útboði Strætó bs. innanbæjarakstri árið 2010 þegar samið var við Hagvanga ehf og nú er staðfest að greiðslur umfram tilboðs með vísitöluhækkunum eru um 700 m. króna hærri en tilboð hljóðaði uppá,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir, að það sé mat stjórnenda Bíla og fólks að nýtt útboð á vegum Strætó um akstur með fatlaða á höfuðborgarsvæðinu sé að óbreyttu sýndarútboð „sem gefi stjórnendum Strætó bs. tækifæri og allt of rúma heimild til að velja sér þóknalegan [sic] verktaka og of frjálsar heimildir með breytingar á umfangi aksturins [sic] allt eftir eigin geðþótta. Er þess krafist að umræddu útboði verði frestað á meðan frekari rannsókn og skoðun fari fram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert