Vínið verði ekki selt í samstarfi

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Þetta fyrirkomulag á við um örfáa staði en það mun detta út á þessu ári. Það er allavega stefnan,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í samtali við mbl.is spurð út í það fyrirkomulag að sumar verslanir fyrirtækisins hafi verið reknar meðal annars í samstarfi við matvöruverslanir á landsbyggðinni. 

Sigrún segir að þetta fyrirkomulag hafi verið eitthvað víðar áður. Þannig hafi verið samið við aðra rekstraraðila um að fá lánað starfsfólk á álagstímum og um að deila starfsmannaaðstöðu. „En verslunarstjórinn var alltaf okkar starfsmaður og á okkar vegum þannig að ábyrgðin var alltaf hjá okkur. En samstarfsaðilinn sá okkur fyrir aukafólki og afleysingu en ábyrgðin á rekstrinum var alfarið hjá okkur, í afmörkuðu húsnæði, birgðir í okkar eigu og sérstakt tölvukerfi.“

Fyrirkomulagið á í dag við til að mynda á Þórshöfn, Hólmavík og Hvammstanga. „En þetta er í raun og veru rekstrarform sem er að detta út og ég held að þetta séu bara 3-4 staðir eftir og þeir detta væntanlega út á þessu ári. Þetta hefur verið undantekning á nokkrum minni stöðum úti á landi. En stefnan hefur verið að hverfa frá þessu fyrirkomulagi þegar samningar hafa runnið út og að allur reksturinn væri á okkar vegum getum við sagt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert