„Skortur á rútubílstjórum á Íslandi“

mbl.is/Kristinn

„Það er skortur á rútubílstjórum á Íslandi og mjög erfitt orðið fyrir íslensk fyrirtæki að ráða rútubílstjóra í vinnu. Ég heyri það á mínu fólki að ekki þyki spennandi að ganga í þetta starf,“ segir Óskar Jens Stefánsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis, í samtali við mbl.is. 

Sem dæmi um hve erfitt sé að manna stöður rútubílstjóra vitnar Óskar til þess að strætóleið á Akureyri hafi verið felld niður vegna þess að ekki hafi fengist rútubílstjóri í starfið, sem greinir frá á Akureyri.is

„Stærsti gallinn við þetta umhverfi í dag er hvað meiraprófið er dýrt. Svo er rútubílaflotinn á Íslandi miklu stærri en hann var. Fleiri fyrirtæki starfa í geiranum og þau stóru eru orðin miklu stærri. Launataxtarnir þykja líka ekki aðlaðandi, svoleiðis að fleiri leita út í vinnu en tíðkaðist áður.“ Vinsælt sé að vinna í Noregi en þar eru kjör jafnan góð. „Þó er vissulega dýrt að lifa þar,“ segir óskar. „Þetta eru ekki allt gullkálfar.“

Þessir þættir stuðli að aukinni samkeppni um rútubílstjóra á Íslandi auk þess sem starfið sé orðið meira heilsársstarf en áður. „Bílstjóri heldur oftar vinnu allt árið í dag vegna þess að túristastraumurinn er stöðugri.“

Meiraprófið miklu dýrara

„Það kostar orðið svo mikið að taka meiraprófið. Ungt fólk sem hefði haft þetta sem hliðarstarf á sumrin er hætt að koma til okkar og það er miklu minni nýliðun í stöðu rútubílstjóra,“ segir Óskar.

Meirapróf til að keyra rútur kostar 318.500 kr. þegar allt er talið saman, auk þess sem viðkomandi þarf að vera með bílpróf, samkvæmt upplýsingum frá Ökuskólanum í Mjódd.

Á öllum sviðum séu kröfurnar orðnar meiri til bílstjóra og fyrirtækja. „Meiraprófið kostar meira vegna þess að kröfurnar eru meiri í dag. Það er besta mál að gera kröfur en launin verða að fylgja með,“ segir Óskar. „Launin hafa dregist afturúr hvað þetta varðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert