Ævintýragarðurinn opnaður á ný

Kennimerki Ævintýragarðsins í Skútuvogi.
Kennimerki Ævintýragarðsins í Skútuvogi.

Ævintýragarðurinn verður opnaður gestum að nýju í dag en honum var lokað af heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í gær. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að athugasemdir eftirlitsins hafi snúist að merkingum í eldhúsi og lítisháttar óþrifnaði á bak við einn hoppukastalann, ekki öryggismálum.

Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ævintýragarðsins í Skútuvogi í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að garðurinn verði opnaður á ný klukkan 16 í dag. „Athugasemdirnar frá heilbrigðiseftirlitinu snerust að merkingum í eldhúsi og minniháttar óþrifum á bak við einn hoppukastala,“ segir Bjarni og neitar fyrir að þær hafi tengst öryggismálum.

Eftir frétt mbl.is í gær um að forsvarsmönnum Ævintýragarðains hafi verið gert að loka spunnust upp umræður og ályktarnir þess efnis að öryggismálum hafi verið ábótavant. „Það hafa borist kvartanir yfir þessum stað og mörgu hefur þar verið ábótavant í gegnum tíðina,“ segir Herdís Storgaard, verkefnastjóri barnaslysavarna hjá Miðstöð slysavarna barna. „Þetta er allt mögulegt. Börn eru að hljóta minniháttar áverka en svo er einnig eitthvað um beinbrot, höfuðhögg og heilahristinga á svæðinu.“

Að sögn Bjarna verða vissulega stundum slys í Ævintýragarðinum. „Slysin eiga sér stað hér eins og annars staðar þar sem börn eru að leik. Það eru þó oftast árekstrar á milli barnanna sem spila þar inn í en öll atvik eru skráð niður og farið með til heilbrigðiseftirlitsins.“

Vantar lög og reglugerðir

Samkvæmt upplýsingum frá Herdísi er vandamálið þó stærra en fólk gerir sér grein fyrir. „Núna eru allskonar garðar að skjóta upp kollinum og í þeim einstöku kringumstæðum hér á landi þar sem allt er leyfilegt. Fólk spyrst fyrir um hvað má og hvað ekki en yfirvöld standa alveg hvumsa vegna þess að þau geta ekki svarað. Það skortir lög og reglugerðir og skilgreiningar á þessa mismunandi starfsemi og hvaða öryggisatriðum hún eigi að framfylgja, en það er eins og venjulega það verður ekkert gert fyrr en að einhver hefur stórslasað sig eða látist.“

Árið 2002 var sett reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. Herdís beitti sér fyrir þeirri reglugerð ásamt Umboðsmanni barna og fleirum. „En eins og hver önnur löggjöf þarf að endurskoða hana reglulega og það hefur ekki verið gert. Ég hef farið oftar en einu sinni og rætt þetta við ráðherra. Það þarf að endurskoða þetta sökum þess að það er komið svo margt nýtt inn í þennan leiktækjaheim,“ segir Herdís og bætir við, „Það hefur ekki enn hlotið neinn hljómgrunn hjá yfirvöldum.“

Að sögn Herdísar eru fjölmörg leiktæki hér á landi þar sem öryggisupplýsingar vantar. „Það vantar nægilegar upplýsingar fyrir eftirlitsaðila eins og heilbrigðiseftirlitið til þess að geta unnið sína vinnu vel. Það vantar einnig upplýsingar um hvað svona staður þarf að uppfylla til að geta verið starfandi.“

Foreldrar bera ábyrgðina

Um Ævintýragarðinn segir Herdís að hún hafi fengið tilkynningar um slys sem áttu sér stað í garðinum. Jafnframt hefur fengið myndir og heyrt lýsingar á slysunum. „Ég veit að þarna eru hlutirnir ekki í lagi. Þegar svona stöðum er veitt starfsleyfi er það gert útaf almennum ákvæðum en það þarf að gera það útfrá forsendum sem byggja á áhættumati, eins og hvað tækið geri og hversu gamalt má barn vera til þess að nota það,“ segir Herdís.

Samkvæmt reglum Ævintýragarðsins eru þeir sem koma með börnin þeir sem bera ábyrgð á þeim. „Við erum þannig séð innanhús róluvöllur,“ segir Bjarni. „Þetta er ekki barnapössun en við reynum auðvitað að gera staðinn eins og öruggan og við getum. Blessunarlega höfum við verið laus við slys sem tengjast okkar tækjum og vonandi verður það þannig áfram.“

Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ævintýragarðsins.
Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ævintýragarðsins. Morgunblaðið/Þórður
Herdís Storgaard.
Herdís Storgaard. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert