Hlýtt en blautt

Regngallinn kemur sér vel í dag og á morgun
Regngallinn kemur sér vel í dag og á morgun mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það er útlit fyrir rigningu og súld á Suður- og Vesturlandi í dag og á morgun en hlýtt og bjart yfir á Norður- og Austurlandi, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Von er á talsvert djúpri lægð aðfararnótt föstudags og fylgir henni talsverð úrkoma. Von er á rigningu víðast hvar en mest á suðvesturhorni landsins. Veðurfræðingur á Veðurstofunni segir að það sé hins vegar einhver vonarglæta um helgina þar sem þá hlýnar talsvert en lofthitinn hefur verið lágur að undanförnu.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring: Suðaustan 5-13 m/s og víða dálítil rigning eða súld. Suðvestan 5-10 síðdegis og úrkomuminna um tíma í nótt en hvessir aftur síðdegis á morgun og bætir í úrkomu. Hægari breytileg átt og léttskýjað NA-og A-til en líkur á þokulofti, einkum við ströndina. Hiti 8 til 19 stig, hlýjast NA-til.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Hægt vaxandi austan og suðaustanátt, 8-15 m/s um kvöldið en mun hægari NA-til. Rigning eða súld V-til en bjart með köflum um landið NA-vert. Úrkomumeira S- og V-lands um kvöldið. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast NA-til. 

Á föstudag:
Austan 5-13 m/s, hvassast með suðurströndinni. Rigning, talsverð suðaustantil en bjart með köflum um landið norðanvert en þó líkur á þokulofti með ströndinni, einkum austantil. Hiti breytist lítið. 

Á laugardag:
Austlæg átt með rigningu á Suðausturlandi, annars víða lítilsháttar súld eða rigning, en úrkomulítið NA-til. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast NA-lands. 

Á sunnudag:
Austlæg átt og víða rigning, einkum sunnan og austanlands en þokuloft við ströndina. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast N-lands. 

Á mánudag og þriðjudag:
Útlit fyrir austlæga átt með vætu um sunnanvert landið en bjartviðri norðantil. Áfram hlýtt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert