Andlát: Sigurður Hallvarðsson

Sigurður Hallvarðsson.
Sigurður Hallvarðsson.

Sigurður Helgi Hallvarðsson, málarameistari og Þróttari, lést í dag, 51 árs að aldri. Banamein hans var krabbamein en Sigurður greindist með heilaæxli árið 2004.

Sigurður fæddist á Siglufirði en fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur fimm ára gamall og ólst upp í Vogahverfinu. Hann fór þá mörg sumrin til Siglufjarðar og hafði sterkar taugar til bæjarins.

Hann lauk sveinsprófi í málaraiðn 1987, meistararéttindi fékk hann 1989 og löggildingu sem málarameistari árið 2000.

Sigurður vann lengi vel með föður sínum og stofnuðu þeir fyrirtækið Gæðamálun saman. Á yngri árum stundaði Sigurður knattspyrnu með Þrótti í Reykjavík en spilaði jafnframt oft með Knattspyrnufélagi Siglufjarðar. Eitt sumar þjálfaði hann Hugin á Seyðisfirði en einnig spilaði hann með þeim og seinna með Haukum og eitt sumar með Fjölni í Grafarvogi. 

<span><span>Þróttari var hann samt alltaf og hélt mikla tryggð við félagið. Á síðasta ári <a href="/frettir/innlent/2013/09/12/safnadi_8_milljonum_fyrir_ljosid/">safnaði hann um 10 milljóna króna áheitum</a> til endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvarinnar Ljóssins með því að ganga frá Hveragerði til Reykjavíkur.</span></span>

Sigurður kvæntist árið 2004 eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingu Maríu Friðriksdóttur. Saman áttu þau synina Sigurð Inga (d.) og Hallvarð Óskar en fyrir áttu þau börnin Ágústu, Snorra, Aron, Rakel, Írisi Katrínu og Viktor. Einnig eiga þau fóstursynina Breka Stein og Sölva Pál.

<strong>Sjá viðtöl mbl.is við Sigurð:</strong>

<a href="/frettir/innlent/2013/08/18/siggi_i_sokn_fyrir_ljosid/">Siggi í sókn fyrir ljósið</a> <a href="/frettir/innlent/2013/08/30/broltid_vonandi_skilad_ser/">Bröltið vonandi skilað sér</a>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert