Rok og rigning í kvöld

Það verður rok og rigning í kvöld
Það verður rok og rigning í kvöld mbl.is/Styrmir Kári

Búist er við hvössum vindhviðum við fjöll á Suður- og Suðvesturlandi í kvöld og geta hviðurnar farið yfir 30 metra á sekúndu undir Eyjafjöllunum seint í kvöld, að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Rokinu fylgir úrkoma og má búast við rigningu víða á landinu.

Veðrið verður verst við fjöll á Suðvesturlandi og Suðurlandi, einkum undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum. Hins vegar fer veðrið ekki að versna fyrr en undir miðnætti og væntanlega ekki margir á ferðinni á þeim tíma.

Að sögn veðurfræðings verður veðrið að mestu gengið niður í fyrramálið en áfram verður hvasst á Vestfjörðum á morgun. 

Útlit er fyrir frekar meinlaust veður á landinu um helgina en lítið mun sjást til sólar. Rigning á köflum og sólarlítið, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Helst mun rigna á Suðurlandi.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðlæg átt, víða 3-8 m/s og dálitlar skúrir sunnan- og vestantil, bjart með köflum um landið norðaustanvert. Vaxandi suðaustan- og austanátt síðdegis með rigningu, 8-18 m/s í kvöld, hvassast við suðvesturströndina. Austlæg átt 5-10 m/s á morgun og víða rigning. Hiti 10 til 20 stig í dag, hlýjast NA-lands, en heldur svalara á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Austlæg átt 5-13 m/s og rigning, einkum um landið suðaustanvert. Heldur hægari um kvöldið og skúrir, en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á laugardag:
Austan og norðaustan 5-10 m/s. Rigning sunnantil á landinu, dálitlar skúrir norðvestantil, en annars úrkomulítið. Hiti breytist lítið. 

Á sunnudag:
Austan- og norðaustanátt. Rigning með köflum um landið suðaustanvert, en annars þurrt að mestu, en víða síðdegisskúrir. Hiti 10 til 16 stig. 

Á mánudag og þriðjudag:
Austlæg átt og rigning með köflum eða skúrir, einkum síðdegis. Hiti 10 til 15 stig. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir sunnanátt með rigningu, en úrkomulítið norðaustantil. Milt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert