Stálu vegabréfi úr bíl

Vegabréf.
Vegabréf. mbl.is/Golli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í dag tilkynningu um þjófnað úr bíl við Landspítalann á Hringbraut. Par sást brjótast inn í bílinn, og meðal þess sem þau tóku var vegabréf manns sem er á leiðinni til útlanda strax eftir helgi.

Að sögn lögreglu sér viðkomandi nú fram á að komast ekki í utanlandsferðina, án vegabréfsins. Lögregla biðlar því til samvisku fólksins sem braust inn í bílinn, því vegabréfið er þeim gagnslaust á meðan mikið er í húfi fyrir manninn að fá það í hendur.

Þjófnaður á biðstofu

Þetta var annar bíllinn af tveimur sem brotist var inn í í dag og munum stolið, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Þá  var á öðrum stað í borginni brotist inn í nýbyggingu þaðan sem verkfærum var stolið.

Á biðstofu í borginni var farsíma og greiðslukortum stolið, en þjófnaðurinn náðist á öryggismyndavél og tókst að bera kennsl á þjófinn á upptökunni. Lögregla hafði upp á honum svo sími og greiðslukort komust aftur í hendur réttmæts eiganda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert