Eiga ekki að sætta sig við þukl

Tónleikagestir - Ungt fólk þekkir ekki alltaf réttindi sín á …
Tónleikagestir - Ungt fólk þekkir ekki alltaf réttindi sín á tónlistarhátíðum Styrmir Kári

„Okkur fannst sláandi að fylgjast með því að ungt fólk sem væri á tónlistarhátíð þyrfti að sætta sig við það að láta þukla á sér án þess að hafa á tilfinningunni að það gæti sagt nei,“ sagði Júlía Birgisdóttir, gjaldkeri Snarrótarinnar, í samtali við mbl.is í dag.

Snarrótin, samtök um borgaraleg réttindi, fer um þessar mundir af stað með átak sem ætlað er að auka þekkingu meðal almennings á borgaralegum réttindum sínum. Gísli Tryggvason, lögmaður og fyrr­ver­andi talsmaður neyt­enda, hefur unnið að gerð sérstakra réttindaspjalda í samstarfi við samtökin og verða þau til dreifingar á tónlistarhátíðum í sumar.

„Þetta átak kom upp í kjölfar Secret Solstice hátíðarinnar þar sem lögreglan var viðstödd dulbúin að leita á gestum og gangandi,“ sagði Júlía. „Við fylgdumst með því og sáum að það sem þeir voru að gera virtist handahófskennt, ástæðulaust og einsog fólki væri ekki kynnt réttindi sín. Þá fórum við að velta því fyrir okkur hvort fólk þekkti almennt réttindi sín.“

Spilað á þekkingarleysi ungs fólks

„Við fórum af stað með Gísla Tryggvasyni lögmanni að útbúa lítið réttindaspjald í nafnspjaldastærð sem setti fram réttindi fólks gagnvart lögreglu á einfaldan hátt.  Okkar tilfinning var nefnilega sú að með þessum leitum væri verið að spila inná þekkingarleysi ungs fólks,“ sagði Júlía.

„Við höfum heyrt frá fólki sem var leitað á, að rök lögreglu fyrir því hafi verið að viðkomandi hafi brotið af sér á einhvern hátt í fortíðinni. Við sáum þá líka lögreglu grípa í fólk á labbinu til að fremja leit á því, án þess t.d. að hundur hafi gefið til kynna að viðkomandi væri grunsamlegur. Þetta fólk skar sig ekki úr hópnum að neinu leyti en samt ákvað lögregla að fremja leit á því.“

Fólk standi á rétti sínum

„Handahófskenndar leitir eru einfaldlega ekki heimilar,“ sagði Júlía og vísar þar í stjórnarskrárbundinn friðhelgisrétt samkvæmt 71. grein stjórnarskrárinnar og bendir á að samkvæmt lögum um meðferð sakamála megi ekki leita á fólki án þess að uppfylla þrjú skilyrði. „Það þurfa að vera hlutir sem nauðsynlegt er að gera upptæka, rökstuddur grunur þarf að liggja fyrir leit og afbrotið þarf að varða fangelsisvist. Ef fólk vill ekki láta leita á sér á það að segja nei og spyrja á hvaða forsendum lögreglan sé að leita á þeim.“

Hún sagði að hinsvegar skuli ávallt ríkja gagnkvæm virðing milli lögreglu og hátíðargesta. „Við hvetjum fólk til að eiga róleg og yfirveguð samskipti við lögregluna án þess að ögra henni en jafnframt að standa á rétti sínum.“

Menningarleg mismunun höfð í frammi

„Okkur finnst ósanngjarnt að ungt fólk sé gert að skotmarki á útihátíðum. Lögreglan gæti fundið vímuefni á stöðum sem aðrir þjóðfélagshópar sækja ef hún vildi,“ sagði Júlía og bendir á að mat lögreglu feli oft í sér ákveðna mismunun.

„Við höfum skoðað mismunandi hátíðir með þessi mál í huga og svo virðist sem lögreglan einblíni á vissar hátíðir. Íslenska orðið yfir slíkt er menningarleg mismunun. Lögreglan stundar þessar leitir frekar á hátíðum sem ungt fólk sækir heldur en eldra fólk. Það er brot á jafnræðisreglu.

Ef lögreglan færi á árshátíðir sumra stórra, virtra fyrirtækja dulbúin galakjólum og smóking og gripi til fólks inni á klósetti og þuklaði á því gæti hún alveg jafn líklega fundið vímuefni.“

Júlía tekur fram að hún kalli engan veginn eftir auknum leitum lögreglu í samfélaginu en dregur upp þessa mynd til að benda á mismunun í vinnubrögðum lögreglunnar. „Við erum að kalla eftir því að þessum óþarfa aðgerðum linni.“

Sameiginlegt markmið lögreglu og hátíðargesta

Júlía tekur fram að Snarrótin vilji ekki fara upp á móti lögreglunni sem stofnun en gagnrýnir einfaldlega ákveðin vinnubrögð.

„Við viljum höfða til fólks að bera virðingu fyrir störfum lögreglunnar og gera þeim ekki erfiðara fyrir en engu að síður að sætta sig ekki við að brotið sé á réttindum þeirra.“

Markmiðið hljóti að vera hið sama hjá öllum. „Við hvetjum alla til að haga sér vel og koma vel fram. Þetta getur allt gengið svo vel fyrir sig, sem hlýtur að vera markmiðið hjá öllum, bæði lögreglu og þeim sem sækja hátíðirnar.

Við eigum öll að snúa bökum saman og vinna að því að þessar hátíðir séu öruggur staður til að vera á.“

Plakat - Snarrótin gengur fyrir átaki til að auka þekkingu …
Plakat - Snarrótin gengur fyrir átaki til að auka þekkingu á borgaralegum réttindum Snarrótin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert