Fagna lífinu af ákefð

Frosti Logason þáttastjórnandi Harmageddon er í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins …
Frosti Logason þáttastjórnandi Harmageddon er í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hann var þungarokkari sem hafði ekki áhuga á pólitík en er nú orðinn stjórnmálafræðingur og annar umsjónarmanna útvarpsþáttarins Harmageddon. Frosti Logason ræðir um árin í Mínus, pólitískan rétttrúnað og trúleysi í viðtali í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins í dag.

Frosti Logason stjórnmálafræðingur er annar umsjónarmanna útvarpsþáttarins Harmageddon á X-inu, ásamt Mána Péturssyni. Frosti var, eins og alkunna er, gítarleikari í hljómsveitinni Mínus en hætti í hljómsveitinni árið 2007 og hóf sama ár nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Frjálshyggjuanarkisti

Aðspurður um stjórnmálaskoðanir segist Frosti tvímælalaust flokkast sem hægrimaður, en hann hafi ekki fundið hjá sér löngun til að styðja flokka.

Ætli það megi ekki kalla mig frjálshyggjuanarkista. Foringjadýrkun og hvers konar átrúnaður á goð finnst mér afleit hugmyndafræði. Ég vil að einstaklingurinn fái að vera í friði fyrir ríkisvaldinu því að ríkið er eign þegnanna en þegnarnir er ekki eign ríkisins. Ég er andstæðingur forræðishyggju, sem er þokkalega rík í íslensku samfélagi þrátt fyrir að við þykjumst vera mjög frjálslynd þjóð.“

Finnst þér of mikill pólitískur rétttrúnaður í þjóðfélaginu?

„Bæði og. Mér finnst óþolandi þegar fólk sem haldið er rasisma svarar fyrir sig með því að segja að gagnrýni á málflutning þess sé pólitískur rétttrúnaður og kvartar undan því að fá ekki að hafa pólitískar skoðanir sínar í friði. En vissulega er óþarfa rétttrúnaður á ákveðnum sviðum. Ýmislegt í femínísku flóðbylgjunni jaðrar við dogmatísk trúarbrögð, sem ég er í grunninn mótfallinn. Þegar menn hoppa á þann vagn að femínismi eigi að vera innprentaður í grunnskólabörn er það pólitísk stefna, rétt eins og ef þess yrði krafist að frjálshyggjan væri kennd í skólum sem hin eina rétta leið meðan hún er bara ein af mörgum pólitískum stefnum.“

Rússíbanareið með Mínus

Frosti var tvítugur þegar hljómsveitin Mínus var stofnuð árið 1998 og lék með henni í 9 ár. „Það var lengst af alveg frábær tími. Undir lokin vorum við strákarnir þó orðnir mjög þreyttir hver á öðrum, þetta var mikil samvera og slítandi, en virkilega góð lífsreynsla. Við tókum upp nokkrar góðar plötur, ferðuðumst saman út um allan heim, fimm strákar, ýmist á hótelherbergjum eða hljómsveitarútum í mismunandi ástandi því þessu hljómsveitarlífi fylgdi alls konar gleði. Þetta tók á taugarnar. Við upplifðum ógleymanleg ævintýri og lifðum eins og rokkstjörnur á öllum ferðalögum okkar, þar sem stjanað var við okkur á allan hátt. Þetta var rússíbanareið.“

Heldurðu að þú hafir jafnvel um tíma misst jarðsambandið?

„Auðvitað fannst mér það ekki á þeim tíma en eftir á að hyggja sé ég að það brenglar huga manns að vera í vinsælli rokkhljómsveit á unga aldri. Mamma geymir úrklippur og blaðaviðtöl sem tengjast hljómsveitinni og núna finnst mér oft vandræðalegt að lesa það sem ég lét hafa eftir mér á þeim tíma.“

Þú hættir í Mínús, af hverju?

„Það reynir á þolrifin að vera svona lengi í mikilli návist við aðra og um leið geta minnstu smáatriði í fari félaganna byrjað að fara í taugarnar á manni. Þetta held ég að sé fullkomlega eðlilegt. Þegar ég hætti í hljómsveitinni vorum við eiginlega nánast orðnir óstarfhæfir af þreytu hver á öðrum. Ég og Þröstur bassaleikari hættum en hinir þrír héldu áfram með nýjum bassaleikara. Mér fannst þetta orðið gott.“

Lífið verður aldrei aftur eins

Þegar Frosti var 22 ára missti hann föður sinn, í janúar 2001. 

Hann var verslunarmaður og var á leið í vinnuna þegar hann lenti í bílslysi á Reykjanesbraut. Mamma, sem var flugfreyja, var að fara í flug þegar hringt var og sagt að við ættum að flýta okkur á Landspítalann, þar sem okkur voru sagðar fréttirnar. Lífið verður aldrei aftur eins, en ég reyni að rækta með mér þakklæti fyrir það sem við pabbi áttum saman. Ég lærði mikið af honum og veit hvaða eiginleika ég hef erft frá honum.“

Hvað heldurðu að þú hafir fengið frá honum?

„Hann brýndi stöðugt fyrir mér að vera heiðarlegur og duglegur og ljúka við verkefni þannig að sómi væri að, að eyða ekki peningum sem ég ætti ekki til og svo framvegis. Auk þess eru ótal máltæki og gullmolar sem hann sáði í huga minn sem ég bý að. Ég var kröfuharður unglingur sem ætlaðist til eins og annars af pabba mínum, leit upp til hans og sá hann í ákveðnu hlutverki en hann var auðvitað bara maður eins og ég. Ég sakna þess að hafa ekki fengið að eiga lengri tíma með honum.“

Þar sem þú ert trúlaus trúir þú ekki á annað líf. Merkir það ekki um leið að það skipti ekki máli hvað maður gerir í þessu lífi?

„Nei, þvert á móti. Að trúa því að við séum bara hér í stuttan tíma og eigum síðan framhaldslíf á ennþá betri stað finnst mér gera jarðneska lífið fremur ómerkilegt. Þá er líf okkar bara millilending. Ég fagna lífinu af ákefð vegna þess að ég trúi því að ég eigi einungis þetta eina líf. Ég hugsa mikið um það hvernig eigi að nýta það sem mest.“

Hvernig ætlarðu að nýta líf þitt sem best?

„Ég er 36 ára gamall, hef mikla ævintýraþrá og langar til að sjá miklu meira af heiminum. Það væri gaman að tengja fjölmiðlastarfið, sem ég hef svo mikla unun af, við ferðalög um heiminn. Svo þarf ég einhvern tíma að eignast afkvæmi og tel það reyndar vera eina af skyldum hins trúlausa, enda er eina framhaldslífið sem við eigum það sem lifir áfram í genum okkar.“

Frosti Logason þáttastjórnandi Harmageddon er í viðtalið við sunnudagsblað Morgunblaðsins …
Frosti Logason þáttastjórnandi Harmageddon er í viðtalið við sunnudagsblað Morgunblaðsins í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert