Fjölmennt á Lækjartorgi til að mótmæla drápum á Gaza

Allfjölmennt var á fundi Félagsins Ísland-Palestína á Lækjartorgi í dag, að sögn Sveins Rúnars Haukssonar, formanns félagsins, en þar kom fólk saman til að mótmæla drápum á Gazasvæðinu. Mæting fór fram úr vonum aðstandenda og fundahöld gengu vel.

„Kröfur okkar komust vel til skila: Að blóðbaðið verði stöðvað tafarlaust og Palestínumenn fái alþjóðlega vernd. „Hernámið burt, frjáls Palestína“ voru kjörorð dagsins,“ sagði Sveinn í samtali við mbl.is. 

Meira en 1.500 manns höfðu boðað komu sína á mótmælafundinn á Facebook en viðstaddir telja að fjöldinn sem mætti hafi verið nær 2.000. Félagið Ísland-Palestína stóð fyrir neyðarsöfnun á fundinum og sýndu viðstaddir mikinn samhug, að sögn Sveins. Ekki liggur fyrir nákvæm upphæð sem náðist að safna en samkvæmt upplýsingum frá samtökunum voru föturnar fimm kúffullar.

Þá var þeirra minnst sem látist hafa á Gazasvæðinu með stuttri þögn og að henni lokinni sungu KK og Ellen Kristjánsdóttir lagið When I think of Angels. Reyndist það mjög áhrifamikið, að sögn Sveins Rúnars. Auk þeirra tók Arna Ösp Magnús­dótt­ir, fé­lags­maður Fé­lags­ins Ísland-Palestína, til máls sem og Palestínumaðurinn Salmann Tamimi, sem þakkaði fyrir stuðninginn til palestínsku þjóðarinnar.

Mótmælin munu halda áfram að vaxa

„Þetta var óheyrilega stór fundur. Hér gerðist það sama og gerðist í nóvember 2012 þegar við vorum með fund við bandaríska sendiráðið, þegar ástandið milli Palestínu og Ísraels var svipað og nú. Það var fjölmennasti fundur sem ég man eftir fyrir utan bandaríska sendiráðið í 40 ár. Eins með þennan fund var þetta einn alstærsti fundur sem ég hef séð hérna á Lækjartorgi,“ sagði Sveinn.

Mótmælafundir hafa verið haldnir víðsvegar um allan heim um helgina af sama tilefni. „Þessi mótmæli munu halda áfram að vaxa ef þessi hryllingur heldur áfram.“

Ísrael gefinn taumurinn laus

Sveinn Rúnar telur ekki nóg að gert til að halda aftur af aðgerðum ísraelskra stjórnvalda og herliðs. „Á fundi í Vínarborg mátti heyra að evrópskir utanríkisráðherrar hljómuðu harðákveðnir í því að þessu yrði að ljúka tafarlaust en Bandaríkjastjórn er, þó að Obama tali um að hann vilji stuðla að vopnahléi, ekki tilbúin  að slá á puttana á Ísrael og stöðva þetta tafarlaust. Það er einsog verið sé að gefa þeim lausan tauminn áfram með að níðast á íbúum Gazasvæðisins.“

Sveinn lýsir ástandinu í Palestínu: „Eins og um er talað af Sameinuðu þjóðunum á svæðinu eru þrír fjórðu þeirra Palestínumanna sem hafa látist af völdum Ísraelshers óbreyttir borgarar. Þar á meðal konur og börn á öllum aldri. Mikið er um að heilu fjölskyldurnar séu sprengdar í loft upp á heimilum sínum, síðast í fyrradag, þar sem 17 manna fjölskylda var myrt á einu bretti. Sú krafa sem við gerum til stjórnvalda er að þau geri allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þetta.“

Sniðganga ísraelskar vörur

Hann segir að hver og einn geti látið til sín taka með því að sniðganga ísraelskar vörur. „Það fer ekki hjá því að krafan um efnahagslegar refsiaðgerðir, um að sniðganga Ísrael, verður æ háværari,“ sagði Sveinn og vísaði til alþjóðlegu hreyfingarinnar BDS (e. boycott, divest and sanction) um að sniðganga, hætta fjárfestingum og beita efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Ísrael. „Það er gleðilegt þegar árangur næst í þessari sniðgöngu.“

Félagið Ísland-Palestína hvetur íslenska neytendur til að vera á varðbergi og kaupa ekki ísraelskar vörur, eins og fram kemur á síðu félagsins.

Litið til Íslands sem fordæmi

Sveinn telur að íslenskum stjórnvöldum beri að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. „Þau verða að slíta stjórnmálasambandi við þetta ríki sem virðir ekki alþjóðleg lög og fer svona fram gagnvart nágrönnum sínum. Ég minnist þess að þegar svona stóð á 2008-2009 fannst Ísraelsstjórn halla á í almenningsálitinu á Vesturlöndum. Hún sendi því ráðherra sína til Evrópu til að „leiðrétta“ almenningsálitið í viðkomandi ríkjum.

Menntamálaráðherra Ísraels ætlaði að koma til Íslands í þessum erindum en hann fékk að vita það af þáverandi utanríkisráðherra að hann væri ekkert velkominn. Svona verður að gera. Það er litið til Íslands sem fordæmis í þessum efnum og tekið alvarlega hvað Ísland gerir.“

Uppfært 15.07.2014 kl. 16:21

Arna Ösp Magnúsdóttir flutti ræðu kvöldsins en hún er háskólanemi og fyrrum sjálfboðaliði á Vesturbakkanum á vegum félagsins.

Samkvæmt nýjustu tölum söfnuðust tæplega 500.000 krónur í söfnuninni en þá voru ótalin um 10 kg af mynt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert