Túrismi á hverfanda hveli

Ferðamaður við Þingvelli.
Ferðamaður við Þingvelli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ísland er að hverfa. Sérstaða þess er að falla. Það er að verða útjaskað og það er verið að taka ævintýrin af okkur og gestum okkar,“ segir Ólafur B. Schram, fjallaleiðsögumaður og ferðaþjónustubóndi til 20 ára, en hann hefur miklar áhyggjur af stöðugri og mikilli fjölgun ferðamanna og stefnuleysi þegar kemur að ágangi á íslenskar náttúruperlur.

„Á Íslandi lætur maður ganga yfir sig harða vetur og rigningasumur af því að Ísland er svo sérstakt að því leyti að það er hægt að fara út í náttúruna og njóta hennar,“ segir Ólafur. „En nú er þetta orðið þannig að það eru komnar biðraðir til þess að sjá yfir Þingvelli; biðraðir á Hakinu, biðraðir við Strokk, biðraðir við Seljalandsfoss. Og fyrsta spurningin sem kemur í kollinn á mér og ég vil svara er: Hver er söluvaran? Erum við að selja land þar sem maður getur lent í ævintýrum og í óvissu eða erum við að selja mini-Þýskaland, þar sem eru beinar brautir og allt brúað og malbikað? Hvar er það sem þessir menn sem stjórna þessu bjóða sig fram í að taka ákvarðanir fyrir ferðageirann, hvar sjá þeir fyrir endann á þessu?“ spyr hann.

Ævintýrið að komast á áfangastað og til baka

Ólafur segir daga gömlu bændagistingarinnar liðna, þar sem bændur voru með nokkur herbergi til útleigu og ferðamenn fengu að upplifa lífið og störfin á bænum. Nú keppist þeir við að byggja hótelganga til að anna aukinni eftirspurn og gestirnir fari á mis við íslensku sveitaupplifunina. Hann gagnrýnir þá viðleitni yfirvalda að gera allan aðgang að náttúruperlum landsins auðveldari og segir lítið spennandi að komast á fólksbíl inn í Þórsmörk, svo dæmi séu tekin. „Það er ævintýrið að komast þangað, vera þar og komast út aftur. Það er það ævintýri sem ég vil selja fólki,“ segir Ólafur. „Ég er fullviss um að meginþorri Íslendinga er sama sinnis.“

Þá tekur hann Landmannaleið um Dómadal sem dæmi. „Þegar ég var að keyra þar í nýliðinni viku þá sé ég að það eru komin ræsi á þremur stöðum í Klukkugilsfitjum og ég hugsaði með mér: Bíddu við, af hverju er verið að setja ræsi hér ef ekki á að þurrka alla leiðina inneftir?“ segir hann. „Þarna sá ég allt í einu að þetta ævintýri; við erum hér að fá fólk á sínum eigin jeppum, eða sem leigir jeppa eða menn með jeppa til að fara í ævintýri; allt í einu er þetta bara búið. Þeir leggja varla ræsi til að koma fólki lengra í ófærunni og segja því svo að snúa við.

Þriðja dæmið sem ég get nefnt er Kjölur. Kjölur var ævintýri, farðu bara 10 ár aftur í tímann; þetta var það fyrsta sem fólk sagði frá: Það fór Kjöl. Því þar þurfti að fara yfir Sandá, Stóralæk og Beljanda og eitthvað vesen. Núna áttu á hættu að það sé Yaris að reyna að komast fram úr þér. Fólk er hingað komið til að væflast, til þess að þvælast, til þess að megna, vinna sigra og komast heim og geta sagt frá ævintýrinu.“

Biðu í röð við Seljalandsfoss

Ólafur segir í raun um vörusvik að ræða, þar sem fólk sé ekki að upplifa þá villtu íslensku náttúru sem auglýsingaherferðirnar ganga út á. „Að mínu áliti er hún besta söluvaran,“ segir hann. Hann segir ferðaþjónustuna í dag ganga út á hraðferðir; að sjá allt landið á fimm dögum en bróðurparti þess tíma sé varið í rútum. Víða verði ekki þverfótað fyrir fólki og lenti hann m.a. í því á dögunum að fara með gamla Íslandsvini að Seljalandsfossi, þar sem þeir máttu bíða, stórhissa, í röð til að komast bak við fossinn. „Þau sögðu: Þetta er ekki það Ísland sem við ætluðum að sýna börnunum okkar,“ segir Ólafur.

Verið að eyðileggja söluvöruna með offjölgun ferðamanna

Ólafur segir eina lausnina einfalda; hærra verð, og kallar eftir álögum á flugmiða í stað náttúrupassa. Hann segist hafa átt viðræður við aðra leiðsögumenn, rútubílstjóra og þjóðgarðsverði en enginn þeirra kannist við að hafa verið kallaður til samráðs um stefnumótun í ferðaþjónustunni, sem sé nú óumdeilt stærsta atvinnugrein Íslendinga. „Þetta er fólkið sem fer út á mörkina og vinnur við þessar aðstæður en kemur ekki nálægt þessari óstjórn,“ segir hann. Þá segir hann mikilvægt að hafa í huga að stórir hagsmunaaðilar hafi mikið að segja um hvaða leiðir eru farnar. „Þar ríkir peningalegt lýðræði.“

Hann segir að Íslendingar ættu að viðhalda eftirspurninni eftir landinu með því að fullnægja henni ekki. „Við verðum bara að fara að líta á íslenska náttúru eins og fiskistofnana. Það má ekki bara ganga endalaust á þetta og eftirspurnin á ekkert að ráða þessu endilega,“ segir Ólafur. „Hvað gera ekki flugfélögin? Fáir miðar á lágu verði og þegar sætin eru orðin fá eftir getur maður keypt þau á þreföldu verði.“

Hann segir að verið sé að eyðileggja söluvöruna með offjölgun. „Það er einhvers staðar lína á hverjum stað á landinu þar sem fólkið – ég tala nú ekki um jörðina, heldur fólkið – þolir ekki meiri ágang. Við þurfum líka að tala um þolmörk fólksins, ekki bara grassvarðarins. Það fer svolítið kikkið úr þessu þegar það er of margt fólk og hættan er sú að kynningin verði óaðlaðandi.“

Ólafur B. Schram, fjallaleiðsögumaður og ferðaþjónustubóndi.
Ólafur B. Schram, fjallaleiðsögumaður og ferðaþjónustubóndi.
Ferðamenn við Seljalandsfoss.
Ferðamenn við Seljalandsfoss. Rax / Ragnar Axelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert