Mótmæla blóðbaði á Lækjartorgi

Undanfarið hafa mikil átök verið á Gazasvæðinu.
Undanfarið hafa mikil átök verið á Gazasvæðinu. AFP

Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir mótmælafundi á Lækjartorgi í dag klukkan 17. Á heimasíðu félagsins er tekið fram að á fundinum gefist almenningi á Íslandi tækifæri til að tjá andúð sína á árásum Ísraelshers á Gaza.

Arna Ösp Magnúsdóttir, félagsmaður félagsins Ísland-Palestína, mun flytja ávarp á fundinum en hún nefnir að þar verði farið fram á að utanríkisráðuneytið beiti sér fyrir því að stjórnmálasambandi Íslands við Ísrael verði slitið.

„Þarna eiga sér stað árásarstríð en ekki átök. Ísraelsher býr yfir fullkomnu varnarkerfi svo þeir geta skotið niður þessar rakettur sem skotið er yfir landamærin,“ segir Arna.

Hún segir einnig að á heimasíðu viðburðarins hafi rúmlega þúsund manns boðað komu sína svo hún sé bjartsýn á að margir taki þátt í mótmælunum.

Tónlistarmennirnir KK og Ellen Kristjánsdóttir verða á staðnum en þau munu bæði syngja og segja nokkur orð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert