Aukinn áhugi stráka á súludansi

Pole fitness.
Pole fitness.

Nanna Yngvadóttir hefur æft, kennt og keppt í pole fitness í að verða fimm ár. Hún segir íþróttagreinina vera krefjandi og erfiða en virkilega skemmtilega og gefandi. Greinin er ekki laus við alla fordóma en viðhorf hafa breyst mikið og þátttakendum fjölgað hratt á undanförnum árum.

Nýjungagirni Íslendinga sést vel í öllum þeim fjölda nýrra íþróttagreina sem njóta vinsælda hér á landi.Pole fitness er ein þeirra vinsælu íþróttagreina sem hafa numið hér land undanfarinn áratug en það voru nokkrar framtakssamar stelpur sem hófu að stunda íþróttina og kenna hana hér á landi. Þrátt fyrir að njóta ekki sömu vinsælda og mörg önnur ný æfingakerfi líkt ogcrossfit eðabootcamp er engu að síður töluverður fjöldi sem stundarpole fitness og fer vaxandi samkvæmt Nönnu Yngvadóttur,pole fitness kennara og keppanda, en hún hefur kennt og keppt ípole fitnessbæð á Íslandi og í Danmörku. „Það heftir vöxt greinarinnar að strákar sækja í miklu minna mæli í hana en stelpur. Það er þó alls kostar ekki þannig að strákar stundi íþróttina ekki yfirhöfuð og við finnum fyrir auknum áhuga stráka sem vilja prófa að spreyta sig á stönginni og kynnast þessu krefjandi æfingakerfi,“ segir Nanna, sem jafnframt bendir á að í dag megi finna stráka sem stundi íþróttina reglulega og keppi í henni.

Sjálf byrjaði Nanna að stunda pole fitness árið 2009 þegar vinkonur hennar drógu hana með sér á æfingu. „Ég hafði verið í fimleikum í mörg ár og var að leita mér að einhverju nýju þegar vinkonur mínar fengu mig með sér á eina æfingu. Í dag eru þær löngu hættar en ég er enn að og hef bæði keppt og kennt pole fitness síðan.“ Bakgrunnur Nönnu úr fimleikum hefur hjálpað henni mikið og segir hún gott að fólk hafi einhvern bakgrunn úr fimleikum eða dansi. „Fimleikarnir gerðu mér auðveldara fyrir að gera margar krefjandi æfingar á súlunni en það er alls engin nauðsyn að fólk hafi bakgrunn úr öðrum íþróttum áður en það kemur í pole fitness. Það skiptir mestu máli að fara rólega af stað, hlusta á kennarann og læra undirstöðuatriðin vel. Skiptir engu hvort fólk komi sprenglært úr öðrum íþróttagreinum, allir þurfa að læra sama grunninn áður en farið er í flóknari og erfiðari æfingar á súlunni.“

Fordómarnir minni en í upphafi

Nýjar íþróttagreinar þurfa oft að vinna gegn fordómum en fáar jafn mikið og pole fitness. Samsömun við súludans, sem flestir þekkja sem erótískan dans á súlu, hefur ekki verið íþróttagreininni til framdráttar en Nanna segir fólk farið að átta sig á því að þó að súlan sé samnefnari erótíska súludansins og pole fitness sé fátt annað líkt með þessum tveimur greinum. „Auðvitað höfum við fundið fyrir fordómum og finnum enn fyrir þeim. Mér finnst samt sem áður að fólk líti íþróttina öðrum augum í dag en það gerði fyrir örfáum árum. Það væri ekki heldur allur þessi fjöldi að æfa ef viðhorf fólks hefðu ekki breyst eitthvað.“

Enn heyrast þó gagnrýnisraddir þegar auglýst eru námskeið fyrir börn og unglinga í pole fitness og þykir þá eflaust einhverjum ekki viðeigandi að börn séu að sveifla sér á súlu. „Sama gagnrýni heyrist ekki þegar auglýst eru dansnámskeið fyrir börn eða fótboltaæfingar. Pole fitness er íþróttagrein eins og bæði fimleikar og fótbolti. Auðvitað skiptir máli að æfingarnar séu í samræmi við aldur og þroska þátttakenda en fyrir utan það er þetta alveg eins og að senda börnin þín á fimleikaæfingu eða í samkvæmisdans,“ segir Nanna og þakkar aukinni umfjöllun í fjölmiðlum og fjölgun þátttakenda í pole fitness þann viðsnúning sem hefur verið í viðhorfi til greinarinnar.

Pole fitness.
Pole fitness.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert