Fötluð börn þurfa að sofa í 4 stiga hita

Sólveig reynir meðal annars að bæta hag þessa drengs með …
Sólveig reynir meðal annars að bæta hag þessa drengs með fjáröflun sinni. Ljósmynd/Sólveig María Sigurbjörnsdóttir

Sólveig María Sigurbjörnsdóttir sjúkraþjálfari starfar nú sem sjálfboðaliði í Elundini, skóla og dagvistarheimili fyrir fötluð börn í nágrenni Höfðaborgar í Suður-Afríku. Nýlega setti hún af stað fjáröflun eftir að hún sá hvað tækjabúnaður var slæmur í skólanum.

„Mér finnst erfitt að horfa upp á börnin í illa förnum hjólastólum, ganga við göngugrindur sem henta þeim engan veginn og að þarna skuli ekki vera almennileg aðstaða eða tækjabúnaður fyrir sjúkraþjálfun. Þarna eru í kringum 10-20 börn hverju sinni sem virkilega þurfa á þjálfun að halda og henni er illa eða alls ekki sinnt,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is. 

Samkvæmt heimasíðu söfnunarinnar sem Sólveig stendur fyrir fer lofthiti í skólanum niður í allt  4 gráður á nóttunni. Börnin þurfa því að sofa fullklædd og umvafin teppum. Einungis einn hitablásari er í skólanum en Sólveig hyggst nota hluta söfnunarfjárins til að kaupa fleiri.

Augljóst er að mikið vantar upp á tækjabúnað í skólanum en hún hyggst bæta úr því með söfnuninni. „Mig langaði því að sjá hvort ég gæti safnað fé til að bæta úr þessu eins og hægt er og það hefur gengið ótrúlega vel, í raun framar vonum. Fólk hefur tekið mjög vel í þetta, bæði kunnugir og ókunnugir,“ segir hún.

Sólveig mun dvelja í Suður-Afríku í átta vikur og sinna þar sjálfboðastarfi á vegum SAVE-samtakanna. Hún hefur dvalið þar í um þrjár vikur og segist því hafa fengið ágætis mynd af fátækrahverfinu og skólanum sjálfum.

Á Facebook-síðu söfnunarinnar kemur fram að markmiðið sé að safna 100.000 krónum en þar er einnig bent á reikningsnúmer söfnunarinnar:

Reikningsnúmer: 0344-26-007836  
Kennitala: 221185-2269.

Börnin í Elundini þurfa að sofa fullklædd enda er mjög …
Börnin í Elundini þurfa að sofa fullklædd enda er mjög kalt á nóttunni og einungis einn hitablásari er í skólanum. Ljósmynd/Sólveig María Sigurbjörnsdóttir
Sólveig María með hluti sem hún gat keypt fyrir söfnunarfé.
Sólveig María með hluti sem hún gat keypt fyrir söfnunarfé. Ljósmynd/Sólveig María Sigurbjörnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert