Stunginn í kálfa í samkvæmi

Hnífur.
Hnífur. Wikipedia/Carter Cutlery

Karlmaður á þrítugsaldri var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala frá heimahúsi í Hafnarfirði á fjórða tímanum í nótt. Maðurinn sagðist hafa verið stunginn með hníf í kálfa og að verki hefði verið kona í samkvæminu. Konan var farin af vettvangi þegar lögreglu bar að garði en rætt verður við hana síðar.

Einnig voru í nótt tveir karlmenn fluttir úr miðborg Reykjavíkur á slysadeild, annar með sjúkrabifreið en hinn í lögreglubíl. Sá fyrri var sleginn í rot við Tryggvagötu á þriðja tímanum og var þá kallaður til sjúkrabíll. Að sögn lögreglu er vitað hver árásarmaðurinn er, en hann var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að. Þeir munu þekkjast árásarmaðurinn og sá sem fyrir árásinni varð.

Á fimmta tímanum var svo karlmaður á sextugsaldri sleginn í andlitið í Austurstræti. Ekki er vitað hver árásarmaðurinn er, en hann var farinn af vettvangi þegar lögreglumenn mættu. Nokkuð blæddi úr andliti mannsins og var honum ekið á slysadeild Landspítala í lögreglubifreið.

Fangageymslur lögreglunnar við Hverfisgötu voru fullar í nótt og þurfti að vista handtekna í biðklefum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert