Rjómablíða á Austurlandi

Sigríður segir augljóst að fólk sæki í sólina.
Sigríður segir augljóst að fólk sæki í sólina. Sigurður Aðalsteinsson

„Það er yfir 20 stiga hiti hérna og í skotinu hjá mér er um 35 gráður. Það er alveg pottur hérna bara og mælirinn fer stundum í botn hjá okkur,“ segir Sigríður Vilhjálmsdóttir, eigandi kaffihússins Nesbæjar, en austur í Neskaupstað er rjómablíða þessa stundina.

„Fólk gengur hér um á stuttbuxum og vinnur mjög hægt vegna þess að það er svo heitt,“ segir Sigríður og bætir við að nú sé blankalogn og ekki ský á himni. „Við erum búin að vera mjög heppin með sumarið. Veðrið hefur verið rosalega gott og það er mikið setið hérna úti hjá mér. Veðrið í ár er svipað og í fyrra en þar áður var leiðinleg tíð þar sem rigndi mikið,“ segir Sigríður.

Hún tekur eftir auknum straumi ferðamanna sem sækja í sólina og þeir sækja ekki síður í kalda drykki í Nesbæ. „Það er mjög mikið keypt af köldum kaffidrykkjum, frappuchino og svoleiðis. Fólk reynir að kæla sig niður. Það er bara þannig og maður drekkur óvenjulega mikið vatn,“ segir Sigríður.

Hitinn víðar yfir tuttugu gráðum á Austurlandi

Neskaupstaður er ekki einn um hituna í dag en á Hallormsstað fór hitinn í 23 gráður og sömu sögu er að segja um Egilsstaði og Brú í Jökuldal þar sem hitinn var tæplega 23 gráður þegar best lét í dag.

Á hálendinu voru 21,9 gráður á Jökuldal og í Upptyppingum 21,5 gráður. 

Veðurhorfur á landinu eru austlæg eða breytileg átt, skýjað að mestu og smáskúrir. Fyrir norðaustan er bjart með köflum en sums staðar þokuloft við ströndina norðan- og austantil. 

Við suðurströndina er austanátt 8-13 m/s í kvöld og nótt og rigning um landið sunnanvert. Suðlægari átt, 3-10 m/s, á morgun og skýjað með köflum og lítilsháttar skúrir en að mestu léttskýjað fyrir norðan og austan. Hiti 12-23 stig að degi til og hlýjast norðaustantil.

 Veðurvefur mbl.is

Hitinn á Neskaupstað er yfir 20 gráður í dag.
Hitinn á Neskaupstað er yfir 20 gráður í dag. Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert