Sjö sinnum ekið á búfé

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í síðustu viku bárust lögreglunni á Vestfjörðum sjö tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé. Þetta var í Álftafirði, Dýrafirði, Súgandafirði og á Barðastrandavegi.

Í vikunni voru fimm ökumenn í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Sá sem hraðast ók var mældur á 107 km hraða þar sem hámarkshraði er 60 km/klst.

Í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum fyrir síðustu viku segir að höfð hafi verið afskipti af einum ökumanni sem ekki hafði ökuréttindi til aksturs þeirrar bifreiðar er hann ók. Um var að ræða ungan ökumann sem hefur ekki réttindi til að aka bifreið með leyfðum heildarþunga sem nemur 3500 kg.  

Sátu að sumbli fram eftir nóttu

Kl.04:23 aðfaranótt fimmtudagsins 17. júlí urðu lögreglumenn í eftirlitsferð varir við að gestir sætu að áfengisdrykkju á veitingastað sem er á norðanverðum Vestfjörðum. Viðeigandi afskipti voru höfð af rekstraraðila staðarins, segir í dagbók lögreglunnar.

Skömmu eftir miðnættið, aðfaranótt laugardagsins 19. júlí, hafði lögreglan afskipti af fjórum ungmennum á Ísafirði, þau voru aldrinum 15 til 17 ára.  Þau reyndust undir áhrifum áfengis og með áfengi í fórum sínum. Haft var samband við foreldra þeirra og barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um afskiptin.

Í vikunni bárust lögreglunni alls 7 tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé. Þetta var í Álftafirði, Dýrafirði, Súgandafirði og á Barðastrandavegi.

Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að tala í farsíma án þess að nota handfrjálsan búnað. Sekt við þessu broti nemur 5.000 kr.

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp á Vestfjörðum í liðinni viku. Um var að ræða bílveltu í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi skömmu eftir miðnætti aðfaranótt 20. júlí.  Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, slasaðist ekki alvarlega. Hann var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsið á Ísafirði.  Í hinu tilvikinu var um að ræða bílveltu í Árneshreppi á Ströndum. Ökumaður og farþegi í þeirri bifreið kenndu sér ekki meins.

Eigendur 7 bifreiða mega búast við sektum fyrir að leggja ólöglega í liðinni viku. Um var að ræða lagningar á Ísafirði, Hnífsdal, Patreksfirði og Tálknafirði. Ökumenn eru hvattir til að fara að umferðarlögum hvað varðar lagningar sem og aðra þætti er lúta að góðri umferðarmenningu. Alloft leggja ökumenn bifreiðum sínum upp á gangstéttum, of nærri gangbrautum eða öfugt miðað við akstursstefnu.

Einn maður gisti fangageymslu lögreglustöðvarinnar á Ísafirði aðfarnótt sunnudagsins 20.  júlí.  Hann hafði verið handtekinn, mjög ölvaður og illa áttaður, í miðbæ Ísafjarðar og hafði verið að áreita vegfarendur. Hann var látinn sofa úr sér áfengisvímuna.

Villtir á Hornströndum

Seinni part sunnudagsins 20. júlí höfðu erlendir ferðamenn, á göngu á Hornströndum, símasamband við lögregluna á Vestfjörðum. Þeir voru þá staddir uppi á hálendi og vegna þoku áttuðu þeir sig ekki á staðháttum og voru óvissir um hvert halda skyldi.  Haft var samband við landvörð á Hornströndum til að leiðbeina mönnunum.  Engin ástæða var til að bregðast við með öðrum hætti enda veður gott og ferðamennirnir vel búnir.  Þeir rötuðu nokkru síðar niður til Hesteyrar.

Lögreglan á Vestfjörðum vill enn og aftur minna íbúa í Ísafjarðarbæ og aðra þá sem leið eiga um þetta sveitarfélag á að leyfður hámarkshraði hefur verið lækkaður úr 35 km í 30 km.  Þetta var gert að ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum samkvæmt tillögu frá bæjaryfirvöldum Ísafjarðarbæjar. Tilgangurinn er aðeins einn, að tryggja umferðaröryggi bæði akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert