800 ár frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar

Sturluhátíð, til heiðurs Sturlu Þórðarsyni sagnaritara, var haldin í Dalabyggð í dag. 800 ár eru liðin á þessu ári frá fæðingu Sturlu, en talið er að hann hafi komið í heiminn hinn 29. júlímánaðar.

Mikil dagskrá var í Tjarnarlundi í Saurbæ í Dalasýslu en Tjarnarlundur er í landi Staðarhóls þar sem Sturla bjó lengi. Dagskráin hófst klukkan hálftvö og var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, heiðursgestur samkomunnar. Síðan flutti Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar, erindi sem hún kallar „Arfleifð Sturlu Þórðarsonar“ auk þess sem rithöfundurinn Einar Kárason, sem hefur skrifað mikið um Sturlungatímann, var með sérstakt erindi um Sturlu sem bar nafnið „Hann vissi ég alvitrastan og hófsamastan“.

Forseti Alþingis og forseti norska stórþingsins ávörpuðu einnig samkomuna. Í samtali við Morgunblaðið fyrir helgi benti Svavar Gestsson, einn af skipuleggjendum Sturluhátíðar, á að Sturla hefði einmitt skrifað sögu Hákonar gamla Hákonarsonar og reyndar Magnúss sögu lagabætis líka, en hún er víst týnd að mestu leyti.

Sturla var meðal annars höfundur Íslendinga sögu, frásagna af Örlygsstaðabardaga og Flugumýrarbrennu. Hann var einnig höfundur Hákonar sögu Hákonarsonar, eins og áður sagði, auk þess sem margir telja að hann sé að sama skapi höfundur Íslendingasagnanna Eyrbyggju og Laxdælu.

Hugmyndin er sú að þetta verði fyrstu sporin að því að stofna Sturlusetur í Dalasýslu en sveitarstjórn Dalabyggðar hefur gert samþykkt þess efnis að stefnt verði að stofnun þess seturs. Tilgangurinn með þessari hátíð á sunnudaginn er að reyna að skapa hreyfingu sem verður til þess að það verði stofnað,“ sagði Svavar í samtali við Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert