Flugvél var í vanda við Hofsjökul

Vélin sem lenti í vanda yfir hálendinu í kvöld.
Vélin sem lenti í vanda yfir hálendinu í kvöld. mbl.is/Jónas Erlendsson

Klukkan hálfátta í kvöld fékk Landhelgisgæslan upplýsingar frá Flugstjórn þess efnis að lítil flugvél með tvo menn um borð væri í vandræðum yfir hálendinu, milli Hofsjökuls og Langjökuls. 

Flugmaður var ekki viss um eigin staðsetningu, en var við það að verða eldsneytislaus.

Þremur mínútum síðar var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út á mesta forgangi. Slíkur forgangur er ekki notaður nema þegar búist er við hinu versta. Þá voru einnig boðaðar út björgunarsveitir á Norðurlandi og Suðurlandi, sem og hálendisvakt Landsbjargar. 

Betur fór en á horfðist

Fokker 50 vél Flugfélags Íslands var beðin um að hringsóla yfir svæðinu, og hélt hún uppi fjarskiptasambandi milli flugstjórnar og vélarinnar, en um tíma var talið að vélin væri við Langasjó.

Um tuttugu mínútum síðar, rétt undir klukkan átta leit ástandið mun betur út, en þá var vélin farin að fylgja malbikuðum vegi, og taldi flugmaðurinn sig vera í grennd við Skóga.

Klukkan 20:19, einni mínútu áður en flugmaðurinn áætlaði að vélin yrði bensínlaus lenti hann heilu og höldnu á flugvellinum við Vík í Mýrdal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert