Margt enn óljóst um árásina á Flúðum

mbl.is/júlíus

Aðfaranótt laugardags kom til slagsmála á Flúðum sem lauk með þeim hætti að maður tók upp dúkahníf og lagði til annars og risti upp fótlegg hans. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er enn margt óljóst um árásina.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi er með málið til rannsóknar þar sem þarna er um að ræða alvarlega líkamsárás. Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um aðdraganda átakana, árásina og lyktir hennar að hafa samband í síma 480 1010.

Önnur líkamsárás var kærð á Flúðum aðfaranótt laugardags sem var kærð til lögreglu. Í því tilviki var um minni háttar árás að ræða þar sem stimpingar áttu sér stað milli ungs fólks.

Á sunnudag var komið að meðvitundarlausu barni í setlaug við sumarbústað í Hrunamannahreppi. Barninu var komið til meðvitundar og flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild Landspítala til frekari aðhlynningar.

Sama dag axlarbrotnaði karlmaður á Flúðum. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítala. Karlmaður fór úr axlarlið er honum skrikaði fótur og féll við Kerið. Kona slasaðist á höfði er hún féll á palli við sumarbústað í Bláskógabyggð. Í gær datt hestamaður af baki hests í Bláskógabyggð. Maðurinn skaddaðist á baki.

Tvö kynferðisbrot voru kærð til lögreglunnar á Selfossi um helgina. Annað var á Flúðum og hitt á Selfossi. Í öðru tilvikinu er um að ræða blygðunarsemisbrot þar sem ungur karlmaður fór inn á konu sem var inni á almenningssalerni. Hitt tilvikið átti sér stað í heimahúsi á Selfossi og er það mál til rannsóknar. Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi er með þessi mál til rannsóknar og ekki hægt að upplýsa frekar um stöðu þeirra á þessu stigi.

Í nótt var brotist inn í Tryggvaskála á Selfossi. Rúða á bakhlið var brotin og þjófurinn skreið þar inn. Hann hafði á brott sjóðsvél. Þeir sem búa yfir upplýsingum um innbrotið eru beðnir að hafa samband í síma 480 1010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert