Drunurnar reyndust vera snjóflóð

Herðubreið að vetrarlagi, en óvenjulegt er að snjóflóð falli í …
Herðubreið að vetrarlagi, en óvenjulegt er að snjóflóð falli í fjallinu um sumar. Rax / Ragnar Axelsson

Drunurnar sem landverðir heyrðu í Herðubreiðarlindum á miðvikudag voru vegna snjóflóðs norðaustanmegin í fjallinu. Snjófleki fór af stað með miklum látum sem vöruðu í um hálfa mínútu. 

„Landverðir heyrðu einhverjar drunur og töldu að þarna væri skriða. Það var vitað um franska ferðamenn þarna á svæðinu svo að hálendisvaktin fór og svipaðist um eftir þeim og fann þá. Þá kemur í ljós að þeir hafi séð snjóflóð fara af stað langt uppi í fjalli.

Þetta var gamalt skarð sem springur fram og brotnar upp í köggla og rífur með sér grjót. Þannig að þetta varð blönduð skriða þegar neðar dró,“ segir Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands.

Harpa segir algengt að skriður falli á þessum stað á sumrin en óvenjulegt sé að snjóflóð falli á þessum tíma árs. „En þetta hefur aðeins verið að gerast í sumar. Það er dálítið mikill snjór eftir í fjöllum hér og þar þannig að það er allt í lagi að fólk fari varlega í kringum brattar snjóbrekkur þó að það sé gamall snjór í þeim. En annars er engin sérstök hætta á ferðum,“ segir Harpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert