Hreinlæti og kæling grundvallaratriði

Fólkið leitaði til heilsugæslu á fimmtudaginn.
Fólkið leitaði til heilsugæslu á fimmtudaginn. © Mats Wibe Lund

„Það voru semsagt tvær bakteríur að greinast í sumum af þeim réttum sem framleiddir voru í matsölunni. Önnur þeirra er grómyndandi baktería sem fjölgar sér ef það er ónóg kæling eftir hitameðferð. Hin myndast þegar hreinlæti er ábótavant,“ segir Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um matareitrun sem átti sér stað á Dalvík fyrir helgi. Þar veiktust rúmlega 30 manns af matareitrun, en talið er að fólkið hafi veikst eftir að hafa neytt veitinga í tímabundinni matsölu sem sett var upp í tilefni af Fiskideginum mikla.

Voru fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra sendir til Dalvíkur fyrir helgi þar sem þeir rannsökuðu málið og tóku sýni. 

Tvennt fór úrskeiðis

„Það eru ekki komnar staðfestar niðurstöður en nokkuð áreiðanlegur aflestur. Þannig sjáum við nokkuð vel hvernig landið liggur,“ segir Alfreð, sem telur að tvennt hafi farið úrskeiðis í matsölunni á Dalvík.

„Aðalatriði er kælingin sem hefur ekki verið nægilega snögg og kann þess vegna einhverskonar mengun hafa átt sér stað. Síðan er það hreinlætið, einhver snerting við matvæli átt sér stað eða jafnvel bara hósti eða eitthvað álíka, sem veldur mengun. Báðar þessar bakteríur sem fundust í sýnunum framleiða eitur sem erta meltingarveg og valda þessum hefðbundnu matareitrunareinkennum. Þau koma hratt og fara yfirleitt hratt en valda mikilli vanlíðan.“

Minna reglulega á þessi atriði

Að sögn Alfreðs minnir heilbrigðiseftirlitið reglulega á þessi atriði og mikilvægi þeirra. „Þetta eru grundvallaratriði þegar kemur að vinnslu matvæla, órofin kæling og almennt hreinlæti. Við reynum alltaf að bera út þennan boðskap um handþvott, þrif á áhöldum og notkun hanska þegar við á. Flestir hlusta en því miður ekki allir.“

Að mati Alfreðs er mikilvægt að allir þeir sem eru í stóreldamennsku þekki þessi atriði. „Þetta samspil af tveimur grundvallaratriðum eru algengustu ástæðurnar fyrir því að hlutirnir fari úrskeiðis og fólk veikist, og líklega er það það sem gerðist á Dalvík.“

Samkvæmt Auði Halldórsdóttur, lækni á Dalvík, stóð matareitrunin stutt yfir hjá flestum og veit hún ekki betur en allir hafi jafnað sig. „Álagið var óvanalegt en þó þurfti ekki að auka viðbúnað,“ segir Auður.

„Leituðu á heilsugæslu með matareitrun“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert