Frosti hugsi yfir samþjöppun á matvörumarkaði

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segist vera hugsi yfir vaxandi samþjöppun á matvörumarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Í samtali við Reykjavík vikublað, sem kom út í dag, segir hann að samkeppnislöggjöfin þurfi að vera í endurskoðun og að fylgjast þurfi vel með þróun mála. „Þess vegna held ég að þingið og efnahags- og viðskiptnefnd ættu að velta þessu fyrir sér.“

Í frétt blaðsins segir að tvö verslanafyrirtæki, Hagar og Kaupás, séu með um áttatíu prósenta markaðshlutdeild á markaðinum. Fyrirtækin séu jafnframt að miklu leyti í eigu sömu aðila, Arion banka, sjóða sem tengjast bankanum og nokkurra lífeyrissjóða.

„Það þarf reglulega að yfirfara þetta, vegna þess að samþjöppunin hér á landi er svo mikil að við þurfum að vera frekar á varðbergi, en í löndum þar sem samþjöppun er ekki eins mikil, vegna smæðar markaðarins hér,“ segir Frosti jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert