Stærsti jarðskjálftinn til þessa

Frá Vatnajökli.
Frá Vatnajökli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Öflug jarðskjálftahrina heldur áfram við Bárðarbungu en hún hefur staðið yfir frá því um klukkan þrjú aðfararnótt laugardags. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands sjást enn engin merki þess að kvika sé á leið til yfirborðs. Frá miðnætti hafa um 250 skjálftar mælst en í heildina frá því að hrinan hófst eru þeir orðnir á þriðja þúsund.

Stærsti jarðskjálftinn í skjálftahrinunni til þessa varð klukkan rúmlega hálf þrjú í nótt en hann mældist 3,8 að stærð og varð um 2,4 kílómetra norð-norðaustur af Kistufelli í norðvestanverðum Vatnajökli. Fram kemur á vef Veðurstofunnar að tilkynning hefði borist frá Akureyri að hans hefði orðið vart þar.

Virknin hefur verið mest áberandi á tveimur þyrpingum norðan og austan Bárðarbungu. Engin merki eru sem fyrr segir sjáanleg um að gos sé hafið en áfram er fylgst með framvindu mála þar sem atburðarrás sem þessi kann að vera undanfari eldgoss. Vísindamenn hafa aukið vöktun sína á svæðinu og lögreglustjórarnir á Húsavík, Hvolsvelli og Seyðisfirði auk Vatnajökulsþjóðgarðs hafa farið yfir sínar áætlanir.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í gær með vísindamenn og starfsmenn almannavarnadeildar upp á Vatnajökul. Bætt var við mælitækjum og vefmyndavélum á svæðinu sem er liður í aukinni vöktun á jöklinum auk þess sem svipast verður um eftir breytingum á yfirborði jökulsins og mannaferðum á svæðinu.

Lögreglustjórinn á Húsavík ákvað í gær að loka Gæsavatnaleið og öðrum hálendisvegum austan Skjálfandafljóts að Öskju. Vegi F88 að Herðubreiðarlindum (F88) hefur einnig verið lokað vegna mögulegra flóða á svæðinu í kjölfar eldgoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert