Ný veita hefur lítil áhrif á Dynjanda

Veitan hefur lítil áhrif á vatnsrennsli Dynjanda.
Veitan hefur lítil áhrif á vatnsrennsli Dynjanda. Rax / Ragnar Axelsson

Orkubú Vestfjarða hefur sótt um breytingu á núgildandi aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar til þess að veita vatni úr Stóra-Eyjavatni yfir í Mjólká. Dynjandi fær vatn sitt úr Stóra-Eyjavatni, en fossinn er friðaður með lögum. 

Hönnunin á yfir 6 kílómetra langri veitu úr Stóra-Eyjavatni er kostnaðarsöm þar sem ekki er lengur hægt að nýta fyrri hönnun frá árinu 1990, en stofnkostnaður við veituna yrði á bilinu 700-900 milljónir króna.

Að sögn Sölva Sólbergssonar, framkvæmdastjóra orkusviðs hjá Orkubúi Vestfjarða, mun breytingin hafa lítil áhrif á vatnsrennsli Dynjanda. Hann segir að vatn innan Dynjandaárinnar sé friðað að öllu leyti nema nýting vatnsins á hálendinu eins og hér er um að ræða.

„Orkubú Vestfjarða er ekki að gera neitt nema það sem er leyft samkvæmt friðlýsingarskilmálum. Það er verið að setja alls konar skilmála inn í þessi friðlönd og ef orkunýtingin er leyfð samkvæmt gildandi skilmálum kemur það fram og hér er orkubúið að nýta það sem er leyft samkvæmt skilmálunum,“ segir Sölvi. 

Hann segir að Orkubú Vestfjarða beiti sér hvorki fyrir friðun né afléttingu á friðun á Dynjanda.

Orkubúið stundar nú vindmælingar á rannsóknarstigi við Þröskulda, á milli Hólmavíkur og Reykhóla, en einnig norðan við Steingrímsfjörð, uppi á Bjarnafjarðarhálsi í því augnamiði að reisa vindmyllur. „Við erum fyrst og fremst að staðfæra vindinn og kanna hvort að raunmælingar Veðurstofunnar passi alveg inn í þetta. Við erum rétt að stíga fyrstu sporin í þessu,“ segir Sölvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert